Spænska telenóvellan í útrás

22.05.2017 - 15:51
Las Chicas Del Cable eru nýir þættir frá sjónvarpsþáttarisanum Netflix og spænsku framleiðslunni Bambú Producciones. Þættirnir segja frá ástum og örlögum fjögurra kvenna í Madrid árið 1928. Um er að ræða áferðarfallega og kostnaðarsama uppfærslu á hinni hefðbundnu telenóvellu, sem hugsuð er fyrir alþjóðlegan markað.

Ástir og átök í Madridarborg

Sögusviðið er Madrid árið 1928, og segir sagan frá vændiskonu af lágum stigum sem höfð er fyrir rangri sök í morðmáli. Spilltur lögreglumaður býður henni að sleppa undan refsingu ef hún rænir fjárhirslur nýjasta og flottasta símafyrirtækisins í borginni. Unga konan ræður sig í vinnu hjá fyrirtækinu í því skyni að fremja brotið, en kemst að því að á meðal yfirmanna hennar er gamall kærasti sem getur komið upp um hana. Auk þess kynnist hún þremur samstarfskonum sínum og tekst með þeim mikil vinátta, en saman mynda þær hóp símastúlknanna sem þættirnir eru kenndir við. Ástir ungu kvennanna og örlög eru meginþráðurinn í seríunni, og fellur sá þráður að flestu leyti undir hefðbundin stef suður-amerísku sápuóperuhefðarinnar sem í daglegu tali kallast telenóvella. Er formið örlítið frábrugðið bandarísku sápuóperunni, og er sérstaklega vinsælt í suður-Ameríku, á Spáni og í Kína. 

Alþjóðleg nálgun 

Yfirlýst markmið framleiðandanna var að framleiða seríuna á þann hátt að sagan gæti gerst hvar sem er. Er það hugsanlega gert í því skyni að gera verkið söluvænna í staðfærðar framleiðslur annarstaðar í heiminum, og því megi þættirnir ekki vera of spænskir. Í ljósi þess er hvergi minnst á pólitísk umbrot eða aðra sögulega atburði á Spáni á þeim tíma sem sagan á að gerast. Þrátt fyrir það fær borgin að njóta sín og eru slíkir sjónrænir þættir með helstu styrkleikum þáttanna. Tónlistin í þáttunum er nútímalegt danspopp sem stingur mjög í stúf við önnur stef í þáttunum, og kippir áhorfandanum ef til vill út úr töfrum períódunnar. 

Femínískar vinnustaðaperíódur

Þættirnir eru hluti af einskonar bylgju þátta á borð við Mr. Selfridge og The Paradise, Mad Men og Masters of Sex sem eru einskonar „vinnustaðaperíódur“ sem takast sérstaklega á við kynjahlutverk, þar sem linsa nútímaáhorfandans er eins og gluggi gerður til að hneykslast. Auga áhorfandans er þannig beint markvisst að misrétti í samfélagsgerð þess tíma, á hátt sem sjónvarpsefni sem fjallar um samtímann myndi ekki endilega gera.  Jafnvel má nefna Netflix framleiðsluna The Crown, sem fjallar um Elísabetu II Englandsdrottningu sem annað dæmi um slíkt, enda er Buckinghamhöll sannarlega vinnustaður bresku konungsfjölskyldunnar og heimili að auki. Þættirnir Las Chicas del Cable gefa sig út fyrir að hafa femínískan brodd, en þó má setja spurningarmerki við hversu djúpt sá þráður liggur og hvort að megi jafnvel rekja hann til markaðsmála, á tímum þegar femínismi í poppmenningu er orðinn að söluvöru.

Nína Richter fjallaði um Las Chicas del Cable í Lestinni á Rás 1.