SpaceX kom gervihnetti á sporbaug

05.03.2016 - 01:47
A SpaceX Falcon 9 rocket lifts off from Cape Canaveral Air Force station Friday, March 3, 2016.  The rocket is carrying the SES-9 communications satellite.  (Craig Bailey/Florida Today via AP)
Frá flugtaki Falcon 9 í kvöld.  Mynd: AP  -  FLORIDA TODAY
Bandaríska geimferðafyrirtækið SpaceX kom samskiptagervihnetti á braut um jörðu í kvöld. Hins vegar mistókst að lenda fremsta hluta geimfarsins heilu og höldnu á fjarstýrðum fleka eins og stefnt var að.

Falcon 9 geimflauginni var skotið á loft á Canaveral-höfða í Flórída skömmu fyrir miðnætti að íslenskum tíma. Hún hafði með sér gervihnött smíðuðum af Boeing fyrir fjarskiptafyrirtækið SES sem komið var fyrir á braut um jörðu í yfir 40 þúsund kílómetra hæð. Elon Musk, stofnandi og stjórnandi SpaceX var að vonum ánægður með verkið.

Hann sagðist hins vegar ekki hafa búist við því að fremsti hluti geimflaugarinnar myndi lenda heilu og höldnu á fjarstýrðum fleka um 600 kílómetrum undan austurströnd Flórídaríkis. Það varð enda raunin en Musk er bjartsýnn á að næstu flaug takist það. 

Takist SpaceX að framkvæma slíka lendingu kemst fyrirtækið nær ætlunarverki sínu að endurnýta hluta geimflauga og gera geimferðir ódýrari. Fyrir geimskotið var haft eftir stjórnanda þess að erfitt yrði að ná fullkominni lendingu í þetta sinn. Mikla orku þyrfti til þess að koma geimflauginni svo hátt og því yrði lítið eldsneyti eftir til þess að stýra henni á flekann í bakaleiðinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir