Spá stormi á suðvesturhorninu á morgun

27.02.2016 - 23:05
Mynd með færslu
Sannkallað hlandveður er í kortunum næsta sólarhringinn, einkum á Austur- og Suðausturlandi.  Mynd: ruv
Veðurstofan varar við suðaustan-stormi á suðvesturhorninu síðdegis á morgun, með jafnaðarvindi allt að 23 m/s með ströndinni. Þessu fylgir rigning eða slydda. Veður verður heldur skárra víðast hvar annarstaðar á landinu.

Í nótt er spáð landsynningi, 5-10 metrum á sekúndu og stöku éljum, en hægari og léttskýjað á Norðurlandi.  Frost verður á bilinu 0 til 15 stig, kaldast fyrir norðan.

Með morgninum má reikna með vaxandi austan- og suðaustanátt með og dálítilli snjókomu, fyrst suðvestantil. Síðdegis bætir enn í vind, spáð er suðaustan 13 - 23 m/s síðdegis með slyddu eða rigningu, og verður hvassast við suðvesturströndina.

Suðaustan 10-15 m/s og dálítil snjókoma um landið norðaustanvert annað kvöld, en snýst í hægari suðvestan átt suðvestantil. Hlýnandi veður.

Næstu daga verður breytileg vindátt og víða dálítil él, en í lok vikunnar dregur úr éljum og léttir víða til með kólnandi veðri. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV