Spá hátt í þriðjungs aukningu ferðamanna

29.02.2016 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV
Íslandsbanki spáir 29% aukningu í fjölda ferðamanna í ár. Gangi spáin eftir koma hingað rúmlega 1,6 milljónir ferðamanna. Þá verði hér 30 þúsund ferðamenn á degi hverjum allt árið, ef miðað er við meðal dvalartíma. Þá reiknar bankinn með að ferðaþjónustan skili um 34% af heildar útflutningstekjum ársins eða um 428 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var í Hörpu í morgun við upphaf ráðstefnunnar Iceland Tourism Investment Conference and Exhibition. Fram kemur í skýrslunni að til samanburðar muni  fjöldi ferðamanna aukast um 4% á heimsvísu, samkvæmt spá World Tourism Organization.

Fram kemur að 290 ný hótelherbergi komi á markað á árinu en ólíklegt er talið að sú aukning anni eftirspurn. Þrátt fyrir að fjölgun hótelherbergja hafi verið sú mesta frá upphafi árið 2015 eða 872 talsins.

Bankinn spáir því líkt og fyrr sagði að 35% af útflutningsverðmætum komi frá ferðaþjónustu sem er aukning um 3% á kostnað álútflutnings sem áætlað er að dragist saman úr 20% í 17%. Bankinn spáir því að sjávarútvegur verði áfram með 22%.

Þá segir í skýrslunni að rekja megi ríflega eitt af hverju þremur störfum sem skapast hafi í hagkerfinu frá 2010-2015 til ferðaþjónustu. Eru þá ótalin þau störf í öðrum ferðaþjónustutengdum greinum svo sem bílaleigu, smásölu, afþreyingu, menningu, tómstundum, verslun og annarri þjónustu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Íslandsbanki  -  RÚV
Þróun fjölda ferðamanna og spá Íslandsbanka fyrir árið 2016.