Sólberg komið til Siglufjarðar

19.05.2017 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Nýr frystitogari útgerðarfyrirtækisins Ramma í Fjallabyggð kom til hafnar á Siglufirði á hádegi í dag. Skipið var smíðað í Tyrklandi og var kaupverðið rúmlega fimm milljarðar króna.

Frystitogarinn, sem hefur fengið nafnið Sólberg ÓF-1, mun leysa tvo eldri frystitogara af hólmi, Sigurbjörgu og Mánaberg, sem hafa þjónað útgerðinni svo áratugum skiptir. „Við erum að endurnýja gömul skip með nýju og mjög fullkomnu skipi. Við ætlum að minnka eldsneytisnotkun frá því sem var og auka aflaverðmæti með því að vinna afurðir sem ekki hafa áður verið unnar úti á sjó,“ segir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma.

Tvær áhafnir verða á skipinu og 34 einstaklingar manna hvora áhöfn. Það eru talsvert færri sjómenn en voru samtals á Sigurbjörgu og Mánabergi. Þá er Sólberg útbúinn nýjustu tækni í veiðum og vinnslu sem kallar á minna vinnuafl um borð. Ólafur segir því að nokkrir hafi misst vinnuna í breytingunum, en sömuleiðis hafi verið nokkuð um tilfærslur innan áhafnarinnar, með fækkun yfirmanna.