Sögulegur bikarleikur í Þorlákshöfn

19.05.2017 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorkell Þráinsson fyrirliði Ægis í Þorlákshöfn sem leikur í 3. deild karla í knattspyrnu býst við betri áhorfendamætingu en venjulega þegar liðið fær úrvalsdeildarlið Víkings í Reykjavík í heimsókn í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar.

„Mætingin verður örugglega betri en á flesta hina leikina. Það er gott að fá heimaleik eftir að hafa þurft að fara til Akureyrar.“ segir Þorkell en Ægir er í fyrsta sinn í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikur Ægis og Víkings R. verður á Þorlákshafnarvelli miðvikudagskvöldið 31. maí klukkan 19:15.

Ægir sló óvænt út Þór á Akureyri með sigri í vítaspyrnukeppni í 32 liða úrslitunum fyrr í vikunni. Þór leikur í Inkasso deildinni, næst efstu deild og er því tveimur deildum ofar en Ægir.

 

Valur besta bikarliðið

Stórleikur 16 liða úrslita Borgunarbikarsins verður þó án efa viðureign ríkjandi bikarmeistara Vals og Stjörnunnar sem eru auk KA, stigahæstu lið Pepsídeildarinnar. Orri Sigurður Ómarsson dró Stjörnuna upp úr skálinni. „Við tókum þrjú úrvalsdeildarlið í fyrra [í bikarnum] og unnum þau öll. Þetta er bara annar leikur. Í bikarnum skiptir engu máli hvar þú ert í deildinni.“ segir Orri.

Guðjón Baldvinsson leikmaður Stjörnunnar segir að Valsmenn séu með besta bikarliðið um þessar mundir. „Þetta er heldur betur erfiður leikur fyrir okkur en þetta er bikarinn og það þarf að vinna besta liðið. Þeir hafa sýnt það síðustu 2 ár að þeir eru í besta bikarforminu.“

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður