Sögðust hafa misst af milljónasamningi við H&M

20.04.2017 - 14:56
Mynd með færslu
H&M opnar sína fyrstu verslun hér á landi á laugardag.  Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Neytendastofa hefur bannað ráðningarskrifstofunni Fast að notast við orðið Talent með þeim hætti að það skapi rugling við ráðningarskrifstofuna Talent. Eigendur Talent ráðningar og ráðgjafar sökuðu eiganda Fast um að hafa með framferði sínu haft af sér ráðningarsamning við sænska fatarisann H&M sem metinn hafi verið á 15 til 20 milljónir. Eigandi Fast vísar öllum slíkum ásökunum á bug.

Harðvítug deila ráðningarskrifstofanna tveggja um vefsíðuna talent.is er rakin í nýlegum úrskurði Neytendastofu.

Hætti störfum eftir aðeins þrjá mánuði

Í erindi Talent til Neytendastofu kemur fram að árið 2015 hafi félagið keypt heimasíðuna talent.is af ráðningarfyrirtækinu Talent ráðningar ehf. Rekstri gamla fyrirtækisins síðan verið hætt, fyrirtækið afskráð og eigandi þess gengið til liðs við nýja fyrirtækið. Eftir rúmt ár  í starfi hafi hann tilkynnt veikindi og hálfum mánuði seinna hætt störfum.

Forsvarsmenn Talent segja að hann hafi síðan lokað heimasíðunni talent.is og beint þeim sem slógu inn þá síðu inn á nýja síðu; talent.radningar.is. Eigendur Talent telja einsætt að þeir hafi eignast lénið talent.is og að með þessari háttsemi hafi viðskiptavinir verið blekktir til að eiga viðskipti við alls óskylt fyrirtæki. 

Sagðist eiga lénið

Eigandinn fyrrverandi, sem nú rekur ráðningarskrifstofuna Fast, vísaði þessum ásökunum á bug og sagði lénið aldrei hafa fylgt með í kaupunum. Hann hafi átt það persónulega. Forsvarsmönnum Talent hafi verið gefnir nokkrir dagar til að útvega sér nýtt lén.  

Hann bendir jafnframt á að framkvæmdastjóri Talent hafi tekið uppsögn hans illa og vegna deilna þeirra hafi vefurinn verið tekinn niður. Ný heimasíða hafi aftur á móti litið dagsins ljós nokkrum dögum seinna. Reynt hafi verið að lægja öldurnar en án árangurs. Hann segir það jafnframt hafa legið fyrir að hann hafi starfað við ráðningar í fjöldamörg ár. Það að margir viðskiptavinir fylgi honum eftir sé ekkert annað en eðlilegt. 

H&M blandast í deilurnar

Forsvarsmenn Talent svöruðu þessu bréfi og sögðust hafa keypt fyrirtækið þegar það var á leiðinni í þrot. Það standi skýrt í kaupsamningi að með í kaupunum hafi fylgt heimasíðan talent.is.

Þá segja þeir að með því að loka fyrir aðganginn að léninu hafi félagið orðið af 15 til 20 milljóna króna samningi við sænska fatarisann H&M.

Fyrirtækið hafi verið við það að ganga frá samningi við H&M um starfsmannamál og starfsmannaráðningar þegar vefsíðan var tekin niður en eigandi Fast hafi tekið virkan þátt í þeim samningaviðræðum. Þá liggi fyrir tölvupóstur frá forsvarsmanni H&M þar sem félagið tilkynnir að það hafi ákveðið að bakka út úr samningaviðræðunum þegar heimasíðan var tekin niður.

Segir samninginn við H&M ekki byggja á einni heimasíðu

Eigandi Fast vísar þessu öllu á bug í bréfi til Neytendastofu. Hann segir að samstarfið við framkvæmdastjóra Talent hafi verið stutt og stormasamt og hann hafi komið því skýrt á framfæri að ef ákveðnir hlutir breyttust ekki myndi hann hætta. Það hafi því hvorki komið á óvart né verið skyndilegt þegar hann lét af störfum hjá Talent ráðningum.

Þá liggi það fyrir að H&M hafi slitið samningaviðræðunum þar sem ein af forsendunum fyrir samstarfinu hafi verið að hann yrði hluti af því. Þetta hafi ekkert að gera með að vefsíðan talent.is hafi verið óaðgengileg yfir eina helgi.

Neytendastofa tekur ekki afstöðu til deilunnar um H&M en bannaði þó eiganda Fast að notast við orðið Talent með þeim hætti að það skapi rugling við fyrrverandi vinnustað hans. Stofnunin ákvað að sleppa öllum sektum.

Fréttin hefur verið leiðrétt .
Talent gerði ekki kröfu um Fast yrði gerð stjórnvaldssekt upp á tíu milljónir eins og stóð upphaflega.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV