Söfnun Kára samhljóða yfirlýsingu stjórnar

30.01.2016 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að fjöldi undirskrifta um aukin framlög til heilbrigðismála endurspegli mjög ríkan vilja til þess að hafa heilbrigðiskerfi landsmanna í sem bestu lagi. Fimmtíu og fjögur þúsund manns hafa skrifað undir áskorunina.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að undirskriftasöfnunin endurspegli mjög ríkan vilja til þess að hafa heilbrigðiskerfi landsmanna í sem bestu lagi. „Það er enginn sem gegnir embætti heilbrigðisráðherra á hverjum tíma sem er sem mun mæla því gegn að fjármunir til þeirra verkefna verði auknir. Það mun enginn gera það. Það er mjög sterkur rómur í samfélaginu um það að við eigum að gera betur. Ég er líka þeirrar skoðunar að við getum gert það.“

Í yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðgerra og læknafélaga í tengslum við kjarasamninga lækna í janúar í fyrra segir orðrétt að ráðist verði í átak í tengslum við stefnu stjórnvalda um betri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti. Yfirlýsingin er því samhljóða kröfunni í undirskriftasöfnuninn sem yfir 50 þúsund manns hafa skrifað undir.

„Við erum ekki að negla okkur endilega í einhverja ákveðna prósentu. Við setjum okkur markmið og mér finnst mjög gott að setja okkur slíkt markmið. Tvímælalaust. Og það höfum við verið að gera. Við höfum verið að taka skref í þessa átt en við erum ekki komin upp í þennan veruleika.“

Kristján segist ekki geta svarað fyrir hvenær þetta verði að veruleika. „Ef við tökum aðeins sambærileikann við norðurlöndin, ef við berum okkur saman við norðurlöndin þá erum við í 8,7 prósentum eða komin upp í 8,8%. Finnland í 8,6 og Noregur í 8,9. Finnland og Noregur eru norðurlönd. Svíþjóð og Danmörk eru miklu hærri og við eigum að sjálfsögðu að stefna í þá átt. Það mun taka okkur einhvern tíma. Það er bara óraunhæft að ætla annað.“  

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV