Snowden segir leyniþjónustur hlera farsíma

Mynd með færslu
Grunur leikur á að leyniþjónustur Bretlands og Bandaríkjanna hafi brotist inn í gagnagrunn stærsta símkortaframleiðenda heims, Gemalto, til þess að geta hlerað símtöl, lesið smáskilaboð og skoðað gögn á símkortum fólks víðsvegar um heim. Í skjölum sem birt voru er minnst á íslenska fyrirtækið Nova.

Upplýsingar um meint brot komu frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden og birtust á síðunni Intercept. Samkvæmt Snowden var brotist inn í gagnagrunn hollenska símkortaframleiðandans Gemalto sem er ráðandi á markaði. Fyrirtækið er með útibú í 85 löndum og rekur 40 símkorta verksmiðjur.

Samkvæmt upplýsingunum sem Snowden lak gera upplýsingarnar leyniþjónustunum kleift að fylgjast með nær öllum farsímasamskiptum sem eiga sér stað í heiminum, bæði símtölum og smáskilaboðum. Þá geta þau fylgst með gögnum sem vistuð séu á símkortunum. Tæplega 500 farsímafyrirtæki skipta við Gemalto og meðal þeirra eru mörg stærstu farsímafyrirtæki heims, svo sem T-Mobile AT & T, Verizon og Sprint. 

Á vefsíðu Gemalto kemur fram að símkort séu örflögur, sem verki í raun eins og lítil tölva með gagnaminni og sérstöku stýrikerfi. Þau teljist afar örugg þar sem notað sé samskonar dulkóðunarkerfi og í fartölvum. Samkvæmt Snowden náðu leyniþjónusturnar að stela dulkóðunarlyklum kortanna með því að hakka sig inn í tölvupóstssamskipti starfsmanna Gemalto. Þetta gerðu þær árið 2010. 

Snowden heldur því fram að leyniþjónusturnar hafi brotist inn í gagnagrunn Gemalto árið 2010. Bandarísku og bresku leyniþjónusturnar hafa ekki tjáð sig um ásakanirnar. Talsmaður Gemalto segir fyrirtækið taka ásakanirnar mjög alvarlega og að það muni beita sér fyrir því að kanna hvort þær standist. 

Fréttaskýrendur segja það hneykslanlegt, hafi leyniþjónusturnar brotist inn í gagnagrunn vestræns fyrirtækis sem fari að lögum. Það sýni að þær svífist einskis og séu reiðubúnar að gera hvað sem er til þess að herða eftirlit sitt með borgurum.  Naomi Grimley, fréttamaður hjá BBC, segir að leyniþjónusturnar geti með því að hakka sig inn í símkortin hlerað símtöl og aflað gagna án þess að fá til þess leyfi hjá símafyrirtækjum eða ríkisstjórnum. 

Breska blaðið Guardian, hefur það eftir Mark Ru­mold, lögmanni hjá Electronic Frontier Foundati­on, að eng­inn vafi leiki á því að hol­lensk lög hafi verið brot­in, og sama gildi um lög annarra ríkja. Þá sagði hann að hugsanlega standi hleranirnar enn yfir. Í grein Guardian um málið kemur fram að það muni líklega leiða til alþjóðlegra málaferla. 

Áður hefur verið greint frá því að bandaríska leyniþjónustan njósnaði um Angelu Merkel og 35 þjóðarleiðtoga til viðbótar, árið 2013. 

Hér er minnst á Ísland og Nova.