Snjallsímafíkn orðin algengari

21.06.2016 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Jon Fingas  -  Flickr
Enginn vafi er á því á því að til er snjallsímafíkn og hún hefur aukist mikið á síðustu árum segir Eyjólfur Örn Jónsson, sálfræðingur. Hún sé bara framlenging af netfíkn. Hann segir það mikið algengara nú en áður að fólk leiti hjálpar hjá honum vegna snjallsímafíknar og þess séu dæmi að fólk lagt snjallsímum til að losna við áreitið.

Eyjólfur segir að snjallsímar séu streituvaldandi,  eign þeirra fylgi krafa um að  fólk sé alltaf í sambandi og alltaf hægt að ná í það; hvort sem er í gegnum samskiptamiðla eða síma. Það geti valdið mikilli streitu - jafnvel ótta - svari einhver ekki skilaboðum á Facebook eða símtali.

Þarf að setja skynsamlegar reglur

Hann segir að með snjallsímunum hafi internetið orðið miklu aðgengilegra en það var. Fólk geti nú óhindrað komist á netið í tíma og ótíma.

Eyjólfur hefur unnið í mörg ár með fólki með tölvu- og netfíkn, en frá árinu 2012 sé algengara að fólk leiti til hans vegna snjallsímafíknar. Ólíkt tölvufíkninni, þar sem fleiri strákar sæki sér hjálp, eru kynjahlutföll jafnari þegar kemur að snjallsímafíkn. 

Hann segir að fyrsta viðbragð við snjallsímafíkninni sé að setja sér heilbrigðari reglur. Til dæmis að ganga ekki með símann alltaf á sér, leggja hann frá sér þegar heim er komið, ekki sofa með hann við hliðina á sér og ekki nota hann sem vekjaraklukku.

Ef það gengur ekki sé hægt að fara „aftur á bak“ í símanotkun. Það er að segja að fá sér síma sem bara er hægt að hringja úr og senda sms. „Það er þó ekki tæknin sem gerir okkur veik, það eru alltaf undirliggjandi ástæður fyrir þessu öllu. Þetta er flóttaleið,“ segir Eyjólfur. 

Hefur áhrif á ástarsambönd

Þegar kemur að ástarsamböndum geti snjallsíminn verið mikið vandamál. „Það er miklu auðveldara vera til staðar, en vera samt ekki til staðar með snjallsímanum,“ segir Eyjólfur og meinar þá að fólk sitji saman en sé andlega fjarverandi í símanum.

Þórhildur Stefánsdóttir skrifaði BA-ritgerð í félags- og fjölmiðlafræði um snjallsíma og áhrif þeirra á ástarsambönd.  

Niðurstaða Þórhildar, sem tók fimm viðtöl við ungt fólk á aldrinum 20-25 ára; eigendur snjallsíma, var að tækið hafði áhrif á sambönd þeirra. Allir viðmælendur hennar sögðu að þeir notuðu símana í rúminu og í raun hvar sem er. „Það fer enginn á klósettið í dag nema taka símann með sér. Alveg eins og fólk fer ekkert upp í rúm án þess að renna í gegnum símann áður en það slekkur,“ sagði einn viðmælandi hennar.

Viðmælendur Þórhildar sögðu að nándin væri meiri  í sambandi þeirra ef snjallsímans nyti ekki við. „Fyrir tíu árum mátti rekja fjórðung hjónaskilnaða til Facebook og netnotkunar. Með símanum er þetta allt orðið aðgengilegra,“ segir Eyjólfur. 

Katrín Lilja Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV