Slys á forsýningu, frumsýningu frestað

24.02.2016 - 00:37
Frá æfingu leiksýningarinnar Hleyptu þeim rétta inn. Vigdís Hrefna Pálsdóttir fer með eitt aðalhutverka.
 Mynd: RÚV
Leikkonan Vigdís Hrefna Pálsdóttir, sem fer með aðalhlutverkið í sýningunni Hleyptu þeim rétta inn, sem frumsýna átti á stóra sviði Þjóðleikhússins á fimmtudaginn kemur, féll niður úr leikmynd verksins og brotnaði á hæl og rist.

Ari Matthíasson, Þjóðleikhússtjóri, sagði í samtali við fréttastofu að Vigdís hafi virst vel áttuð, í ágætu skapi og í ágætu lagi þegar hún fór á slysadeildina, en í nokkru áfalli. Fyrir utan beinbrotin er hún ósködduð. Fresta þarf frumsýningu um minnst viku.

Vigdís var að klifra í leikmyndinni þegar slysið varð. Ari segir hana hafa gert það oft áður, enda hluti af sýningunni, og búið að fara sérstaklega yfir það með þjálfara. „Nú missti hún hins vegar handfestuna og féll um tvo og hálfan metra og lenti á fótunum,“ segir Ari. „Síðan féll hún áfram, aðra eins hæð, og skall flöt á sviðið. Þetta leit svolítið illa út utan úr sal en virðist hafa farið betur en á horfðist.“

Um 300 áhorfendur voru í salnum þegar slysið varð og var fólki eðlilega nokkuð brugðið. Samkvæmt heimildum fréttastofu brugðust tveir læknar og einn hjúkrunarfræðingur, sem voru á meðal áhorfenda, skjótt við og hlynntu að Vigdísi meðan beðið var eftir sjúkrabílnum.

Generalprufa var áætluð annað kvöld og frumsýning á fimmtudaginn, sem fyrr segir. Ari segir að nú þurfi að finna aðra leikkonu til að hlaupa í skarð Vigdísar. Frumsýning mun því frestast um minnst viku eða 10 daga. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV