Slökkviliðsstjóri: „Verðum að í alla nótt“

07.03.2016 - 23:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, býst við því að slökkviliðið verði að störfum í alla nótt og jafnvel fram á morgun við að slökkva eldinn sem kom upp í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu í kvöld. Hann segir að þeir slökkviliðsmenn sem eiga að mæta á vakt í fyrramálið hafi nú verið sendir heim. Jón Viðar segir húsið mikið skemmt og mjög illa farið.

Jón Viðar segir að svo virðist sem milligólf séu í þakinu - það sé því aukavinna fyrir slökkviliðsmenn að róta til þar og hugsanlegt sé að einhverjir reykjarbólstrar eigi eftir að stíga upp af og til í nótt þegar þakið verður opnað.

Iðnaðarhúsnæðið er mikið skemmt bæði eftir eld og reyk. Jón Viðar segir að þeir hafi skoðað kjallara sem er undir öllu húsinu þar sem þeir óttuðust að hann væri fullur af vatni. „En svo var nú ekki - þarna voru einhverjir 20 sm,“ segir Jón en slökkviliðið hafði upplýsingar um að í kjallaranum væru geymdir verðmætir fornbílar „sem mér skilst að mönnum séu kærir,“ segir Jón.

Jón Viðar segir að þar sem húsið sé byggt úr strengjasteypu sé meiri hætta á að það hrynji og það geti meira að segja gerst eftir töluverðan tíma.  Því hafi engir slökkviliðsmenn verið sendir inn í húsið. 

Hátt í hundrað manns tóku þátt í aðgerðum slökkviliðsins í kvöld. Götum í næsta nágrenni var lokað enda lagði mikinn reyk yfir svæðið og ólykt. Nokkrir íbúar við Grettisgötu ákváðu að flýja íbúðir sínar vegna sterkrar gúmmílyktar og viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út.