Slökkviliðið: „Allt of margir eru í símanum“

12.08.2017 - 07:05
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Allt of margir eru í símanum við akstur og ekki með á nótunum í umferðinni. Þetta segir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á Facebook og varar bílstjóra við krosslögðum löppum, fótum á mælaborði, hundum í bílsætum, farsímum og fleiri hættum sem kunna að leynast í umferðinni. Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri sjúkraflutninga, tekur undir viðvörunarorðin. Hann brýnir fyrir fólki að sitja eðlilega í bílum og vera með hugann við aksturinn.

„Stóri punkturinn í þessu er að brýna fyrir fólki að sitja eðlilega í bílum,“ segir hann í samtali við fréttastofu. „Óvenjuleg líkamsstaða getur haft heilmikil áhrif og haft áverka í för með sér þar sem fólk hefði getað sloppið áverkalaust og labbað burtu frá slysinu.“

Eins og kasettutækin í gamla daga

Í Facebook-færslu slökkviliðsins má sjá myndband þar sem afleiðingar þess að sitja með fætur á mælaborði eru sýndar. Þar hefur kona lent í bílslysi og afleiðingar þess hefðu ekki verið eins slæmar hefði hún setið eðlilega. „Ef þig langar til að geta gengið innan við sex mánuði eftir slys, hafðu báða fætur á gólfinu,“ segir líka í færslunni.

Þá tekur Brynjar undir það að einbeiting skipti miklu við aksturinn og að síminn eigi ekki að flækjast fyrir bílstjórum. „Það er ekkert öðruvísi með símann í dag og kasettutæki og geisladiskaspilara í gamla daga,“ segir hann. „Síminn er farinn að grípa inn í, hugurinn er farinn að reika og þá er einbeitingin farin.“ Hann segir að fólk eigi ekki að teygja sig í símann eða aðra aukahluti við akstur, frekar eigi að leggja bílnum eða hringja til baka seinna.

„Það er alltaf ákveðið hlutfall slysa sem gerast vegna þess að fólk er að gera eitthvað annað en það á að gera,“ segir Brynjar. „Fólk á að einbeita sér að einu verkefni í einu“.

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð
Brynjar Þór brýnir fyrir fólki að einbeita sér við aksturinn

Færsla slökkviliðsins:

Á hverjum degi eru sjúkrabílarnir okkar á ferðinni um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess. Við sjáum margt sem betur mætti fara í umferðinni. 
Allt of margir eru í símanum eða að skoða netsíður.
Margir eru ekki með á nótunum í umferðinni og verða okkar ekki varir.

Og svo eru þau sem eru með fætur uppi á mælaborðinu eða með krosslagða fætur. Loftpúðarnir eru nefnilega ekki bara uppi í mælaborðinu eða stýrinu, í nýrri bílum eru púðar sem koma út til að verja hné og leggi og aðrir koma út úr sætum.
Hraðinn á púðum þegar þeir koma út er allt frá 150km/klst eða 4.16m/sek. Bein brotna við minna en það.

Svo... ef þig langar til að geta gengið innan við 6 mánuði eftir slys, hafðu báða fætur á gólfinu.

PS. Þið sem haldið á litlu hundunum ykkar í fanginu við akstur - þetta á við hvuttann ykkar líka. Segjum að voffi sé 5kg. Loftpúðinn kemur út á 150km/klst. Það kemur aldrei til með að verða þægilegt.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV