Slagsmál á skyndibitastað í miðborginni

31.01.2016 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til á skyndibitastað í miðborginni þegar til ryskinga kom milli starfsmanns staðarins og karlmanns sem var að reyna sníkja frían mat. Maðurinn vildi ekki yfirgefa staðinn þannig að starfsmaðurinn þurfti að draga hann út - þegar lögregla kom á vettvang hafði starfsmaðurinn tekið manninn föstum tökum og hélt honum fyrir utan staðinn.

En þar með var átökunum á skyndibitastaðnum ekki lokið. Því þegar lögreglumenn voru að athafna sig hóf annar gestur að kalla ókvæðisorð að starfsmanninum þannig að til stympinga kom milli þeirra. 

Starfsmaðurinn dró sig í hlé þegar lögreglumenn gáfu þeim fyrirmæli um að hætta en maðurinn varð enn æstari. Þessum átökum lauk með því að maðurinn gaf lögreglumanni olnbogaskot - hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa þangað til hann verður yfirheyrður.

Ekki náðist í lögregluna til að fá uppgefið hvaða skyndibitastaður þetta var. Annars kemur fram í dagbók lögreglunnar að töluvert hafi verið um pústra í miðbæ Reykjavíkur þegar líða tók á nóttina - flest málin voru þó yfirstaðin þegar lögreglu bar að.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV