Slæmt að hækka leigu um leið og bætur hækka

10.12.2016 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brýnt er að banna mismunun með lögum, segir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu, en í dag er alþjóðlegur dagur mannréttinda. Þá sé afar dapurlegt að sumir leigusalar hafa séð sér leik á borði og hækki húsaleigu frá áramótum um leið og húsaleigubætur hækka. 

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að mörg verkefni séu brýn á sviði mannréttinda hér á landi. „Eitt af því mikilvægasta er að gera á næstunni er að banna mismunun með löggjöf. Löggjöf sem bannar mismunun t.d. bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði á grundvelli uppruna, kynþáttar, fötlunar, aldurs, trúar- og lífsskoðana, kynhneigðar, kyngervis og svo framvegis,“ segir Margrét.

Nágrannaríkin hafi öll innleitt slíka löggjöf. Það geti hjálpað þeim, sem telja sér mismunað, að leita réttar síns, til að mynda þeir sem er synjað um starf á grundvelli uppruna, þjóðernis eða annars. Þá þurfi að halda áfram baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Einnig þurfi að vinna gegn mansali, gera úrbætur í málefnum fatlaðra og þá hafi enn ekki náðst kynjajafnrétti. 

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar stóð fyrir opnum fundi um mannréttindi og fátækt í gær. Þar lýsti Sunna Magdalena Mörtudóttur uppvexti sínum í fátækt og hvernig henni fannst hún frábrugðin bekkjarsystkinum sínum. „Það versta við þetta er samt að eiga ekki mat, þegar maður er kannski með 29 krónur og ég og mamma náðum að kaupa mynturúllu af Polo-stykkjum og vorum að skipta því á milli okkar. Búnar að leita á bak við alla púða, búnar að snúa öllu við, búnar að leita í töskum, frökkum að leita að klinki og þú veist maður er kannski að nærast á einhverjum myntum, það er kannski það sem stingur mest,“ segir Sanna. 

Margrét segir brýnt að uppræta fátækt. „Það er talið að í kringum tvö prósent landsmanna búi við sára fátækt,“ segir Margrét. Barnafjölskyldur og einstæð foreldri hafi oft lítið á milli handanna. „Ástandið á húsnæðismarkaðnum í dag er alveg hryllilegt og það er auðvitað svo mikill skortur á húsnæði. Leiga er mjög há,“ segir Margrét.

Til að koma til móts við leigjendur verði húsaleigubætur hækkaðar um áramótin. „En ég fékk t.d. símtal núna nýlega þar sem kona með 3 börn, það á að hækka leiguna hennar verulega um áramótin af því að leigusamningur rann út. Þannig að húsaleigubæturnar fara beint í vasann á leigusalanum í stað þess að enda þar sem þær áttu að gera, að bæta stöðu þess sem leigir. Það er leiðinlegt til þess að vita að alla vega eru einhverjir að misnota sína aðstöðu þannig að þá nær þessi löggjöf jafnvel ekki sínum tilgangi,“ segir Margrét.

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV