Skýring: Frá Lúkasi til Gillzeneggers

10.11.2015 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Á annan tug dóma hið minnsta hafa verið kveðnir upp síðustu ár þar sem ummæli fólks á samfélagsmiðlum, bloggsíðum og í athugasemdakerfum fjölmiðla eru dæmd dauð og ómerk. Flestir hafa þurft að greiða þeim sem þeir tjáðu sig um miskabætur og allir hafa staðið uppi með málskostnað sem hleypur oftast á hundruðum þúsunda króna.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er verjandi annars mannanna sem hafa verið kærðir fyrir nauðganir undanfarið og mikil umræða hefur staðið um. Hann sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að verið væri að safna gögnum um alla þá sem hefðu deilt myndum af mönnunum og kallað þá nauðgara. Hann sagði að þeir sem það hefðu gerst hefðu gerst sekir um refsiverða háttsemi.

Nokkuð hefur verið um málshöfðanir gegn fólki vegna ummæla sem það hefur látið falla í umræðu á samfélagsmiðlum undanfarin ár. Lúkasarmálið, Aratúnsmálið og umræða um Egil Einarsson 2012 eru meðal stærstu mála þar sem fólk hefur látið ýmis ummæli falla á samfélagsmiðlum, bloggsíðum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Öll leiddu þessi mál til þess að þeir sem um var rætt stefndu fólki sem þeim þótti hafa gengið of hart fram. Mörgum þeirra mála lauk með dómum. Nokkuð er um að fólki hafi verið send bréf þar sem það hefur verið krafið um afsökunarbeiðni og greiðslu miskabóta en hótað málaferlum ella. Sumir hafa greitt slíkar bætur en aðrir látið á það reyna að málin fari fyrir dómstóla.

Fyrsta samfélagsmiðlamálið

Lúkasarmálið hefur oft verið nefnt sem vendipunktur í almennri umræðu hérlendis. Hundurinn týndist undir lok maí 2007. Mánuði síðar spurðist út að ungmenni hefðu ráðist á og drepið hundinn Lúkas á bíladögum á Akureyri um miðjan júní. Samkvæmt sögunni hafði hundurinn verið settur í tösku og sparkað í hana. Að auki átti að vera til myndbandsupptaka sem sýndi aðfarirnar. Rétt rúmlega tvítugur maður var nafngreindur og sakaður um að hafa drepið hundinn. Farið var hörðum orðum um hann á vefsíðum. Seint í júlí fannst hundurinn Lúkas í hlíðum ofan Akureyrar, hann var þá hrakinn en enn á lífi.

Sá sem var sakaður um að hafa drepið hundinn höfðaði meiðyrðamál gegn konu árið 2010. Í stefnu sagði að hann hefði vart þorað út úr húsi vegna umræðunnar og misst vinnuna í kjölfarið. Sú sem hann stefndi var sögð hafa gengið einna harðast fram gegn honum með ummælum á bloggsíðu sinni. Dómari dæmdi nokkur ummæla hennar ómerk. Hún þurfti að greiða manninum 200 þúsund krónur í bætur, 100 þúsund krónur til birtingar á dómsniðurstöðu og 400 þúsund krónur í málskostnað.

Dómar vegna Aratúnsmáls

Deilur íbúa í Aratúni í Garðabæ í byrjun júní 2010 breiddust út á netinu og urðu margir til að lýsa skoðunum á þátttakendum, einkum einni fjölskyldu. Hjón og sonur þeirra höfðuðu dómsmál gegn blaðamanni DV og sumum þeirra sem tjáðu sig á samfélagsmiðlum.

Einn var dæmdur til að greiða konunni 300 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla um hana og 650 þúsund krónur í málskostnað hennar að auki. Hann hafði sakað fjölskylduna um siðblindu og ofbeldisverk.

Dómari taldi ummæli annars manns, sem birtust á bloggsíðu á vef DV, vera smekklaus og óviðurkvæmileg. Maðurinn var þó sýknaður þar sem ekki væri fallist á að skilja ætti ummælin bókstaflega auk þess sem stefnendur hefðu ekki verið nafngreindir í færslunni.

Kona var dæmd til að greiða hjónum í Aratúni og syni þeirra 100 þúsund krónur hverju um sig í miskabætur auk 200 þúsund króna málskostnaðar. Það var vegna ummæla sem hún lét falla í athugasemdakerfi á DV.is við frétt fjölmiðilsins um Aratúnsmálið. Hún var sýknuð af kröfu fjórða einstaklingsins. Fólkið hafði að auki krafist þess að DV yrði dæmt til bótagreiðslu þar sem ummælin birtust á vef miðilsins. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur synjaði þeirri kröfu og vísaði til þess að nafngreindur höfundur ummæla bæri ábyrgð á þeim. Þess vegna var DV sýknað af kröfu fólksins. Blaðið var þó látið greiða fyrir eigin málsvörn en ekki stefnendur.

Sigurður Már Jónsson, þáverandi varaformaður Blaðamannfélags Íslands, fjallaði um dómsmálahluta Aratúnsmálsins á vef Blaðamannafélagsins. Þar var sjónum beint að því hvernig meiðyrðamál vegna ummæla á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla hefðu þróast. Sigurður sagði að almenningur þyrfti í ljósi dómanna að hugsa sinn gang áður en hann geystist út á hinn rafræna ritvöll. Hann sagði að með dómum sínum hefðu dómstólar minnt á að tjáningarfrelsið sætti þeim takmörkunum að ekki væri hægt að kalla nafngreint fólk skrímsli og glæpamenn eða hvetja til ofbeldiss gegn þei.

Málaferli vegna ummæla um Egil Einarsson

Egill Einarsson höfðaði nokkur meiðyrðamál gegn fólki sem tjáði sig um hann á samfélagsmiðlum 2012. Egill hafði þá verið kærður til lögreglu fyrir nauðgun en rannsókn lögreglu lauk með því að málið var látið niður falla.

Tvær ungar konur voru dæmdar fyrir meiðyrði um Egil. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ummæli annarar á Facebook-síðu sinni dauð og ómerk. Bótakröfu Egils var þó synjað.

Dómari við Héraðsdóm Austurlands ómerkti ummæli annarar konu sem hafði skrifað um Egil á Facebook. Hún var dæmd til að greiða Agli 100 þúsund krónur í miskabætur og 800 þúsund krónur í málskostnað. Að auki var hún dæmd til að greiða 30 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Það var vegna þess að Egill krafðist refsingar samkvæmt almennum hegningarlögum. Algengt er að slíkrar refsingar sé krafist í meiðyrðamálum en fátítt að dómarar verði við því. Sú kona þurfti þó ekki að greiða fjárhæðina sjálf. Fjársöfnun hófst henni til stuðnings á Facebook og innan sólarhrings var búið að safna fyrir öllum kostnaði hennar. 56 þúsund krónur söfnuðust aukalega og var sú upphæð færð Stígamótum sem styrkur.

Einn þeirra sem Egill stefndi breytti ljósmynd af honum, teiknaði kross á hvolfi á enni hans og skrifaði á myndina „Fuck you rapist bastard“. Myndinni dreifði hann á Instagram og margir deildu henni. Egill krafðist einnar milljónar króna í miskabætur en dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur sýknaði manninn. Dómari sagði að myndin og ummælin á henni fælu í sér gildisdóm frekar en staðhæfingu. Gildisdómar njóta víðtækari verndar en önnur tjáning. Dómarinn sagði að hvorki ætti að skilja einstök orð né hvatninguna í heild bókstaflega, heldur væri þetta líkara skömmum eða formælingum en staðhæfingum um staðreynd. Því til stuðnings nefndi dómarinn að orðin væru skrifuð á ensku. Egill varð að borga málskostnað mannsins.

Meiðyrði gegn lögreglumönnum og oddvita

Því fer fjarri að öll meiðyrðamál sem tengjast samfélagsmiðlum og vefsíðum séu hluti af jafn hörðum og útbreiddum viðbrögðum og þeim sem nefnd eru hér að framan.

Nokkuð er um að brotamenn hafi verið dæmdir fyrir ummæli um lögreglumenn, stundum í tengslum við mál sem lögreglumenn hafa verið að sinna. Í október 2012 hlaut maður hálfs árs skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir fíkniefnalagabrot, og hótanir og ærumeiðingar í garð lögreglumanna á Facebook. Dómari vísaði við ákvörðun refsingar til fyrri dóms sem maðurinn hafði fengið og þess að hann hefði haft uppi hótanir og grófar aðdróttanir í garð lögreglumannanna sem handtóku hann.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands í sumarbyrjun vakti nokkra athygli. Þá var kona dæmd til að greiða 50 þúsund krónur í sekt vegna ummæla sinna í garð oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps. Hún sagði á Facebook-síðu sinni að oddvitinn hefði þegið traktor að gjöf og velti því upp hvort um mútur hefði verið að ræða. Oddvitinn kærði ummæli konunnar og ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur henni. Dómari taldi að konan hefði vænt oddvitann um refsivert brot í starfi og dæmdi hana til sektargreiðslu.

Í maí var maður dæmdur í Héraðsdómi Austurlands til að greiða 30 þúsund króna sekt í ríkissjóð og lögreglumanni 150 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla á Facebook. Lögreglumaðurinn kærði sjö ummæli mannsins til lögreglu og ríkislögreglustjóri gaf út ákæru. Ein ummælanna voru dæmd alvarleg og meiðandi fyrir lögreglumanninn.

Fjöldi stakra mála

Ýmis dómsmál hafa verið höfuð í einstaka deilum eða vegna einstakra deilna, sem ekki eru hluti af stærra máli eða útbreiddri hneykslunaröldu. Meðal þeirra má nefna eftirfarandi:

Gunnlaugur M. Sigmundsson, fyrrverandi þingmaður og eigandi Kögunar, og kona hans stefndu Teiti Atlasyni bloggara fyrir meiðyrði árið 2012. Teitur skrifaði færslu á bloggsvæði sitt á dv.is þar sem hann sagði Gunnlaug hafa sölsað Kögun undir sig í krafti pólitískra tengsla og starfa sinna hjá Kögun fyrir aldamót. Þetta setti Teitur í samhengi við stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sonar þeirra, sem þá var orðinn formaður Framsóknarflokksins. Teitur var sýknaður af kröfu Gunnlaugs um ómerkingu vissra ummæla og kröfu Gunnlaugs og konu hans um ómerkingu annarra ummæla var vísað frá dómi.

Í júní síðastliðnum sýknaði dómari við Héraðsdóm Reykjaness mann í máli sem höfðað var vegna stöðuuppfærsla sem hann setti inn á Facebook-síðu sína. Þær sneru að því að dýraúrgangi hafði verið komið fyrir í bíl hans svo ýldulykt gaus upp þegar hann var opnaður. Maðurinn nafngreindi engan en kvaðst gruna hver væri á ferð og rifjaði upp atvik í deilum sínum og fyrrverandi konu sinnar. Konan stefndi manninum, og viðurkenndi fyrir dómi að hafa skemmt bíl hans áður, en dómari taldi að ummæli mannsins hefðu verið sannreynd og tjáning hans innan leyfilegra marka.

Páll Vilhjálmsson var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra af stefnu Önnu Kristínar Pálsdóttur, fréttamanns á RÚV. Hún taldi að hann hefði borið sér á brýn óheiðarlega, ólögmæta, refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsefni. Dómari taldi fulldjúpt í árina tekið hjá Páli að tala um fölsun en sagði að áhöld væru um hvort þýða hefði átt hugtakið accession process sem aðildarviðræður eða aðildarferli og umfjöllun hans því ekki tilefnislaus. Þá benti dómari á að með því að tengja við upphaflega frétt á bloggsíðu sinni hefði Páll gefið lesendum færi á að mynda sér sjálfstæða skoðun á því hvort gildisdómar hans ættu við rök að styðjast eða ekki.

Ummæli konu á MySpace síðu hennar voru dæmd dauð og ómerk fyrir Héraðsdómi Suðurlands vorið 2011. Hún og frændi hennar, sem hafa staðið í áralöngum deilum um bæ á Suðurlandi, stefndu þá hvoru öðru fyrir meiðyrði. Maðurinn stefndi frænkunni vegna ærumeiðandi ummæla sem hún hefði viðhaft á MySpace og hún stefndi honum á móti vegna ummæla sem hann lét falla í bréfi til lögmanna beggja og fleiri einstaklinga. Niðurstaða dómara var að dæma sum ummæli hvors um sig dauð og ómerk en láta önnur standa. Hvort um sig var dæmt til að greiða hinu 300 þúsund krónur í miskabætur. Bæði þurftu að standa skil á eigin málskostnaði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV