Skýra þarf forsendur launalausra starfa

13.02.2016 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og stjórnvöld þurfa að fara betur yfir hvar eigi að setja mörkin milli ólaunaðra starfa og launaðra. Þetta segir Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að skattayfirvöld þurfi líka að skoða skatta vegna sjálfboðaliðastarfa.

Sjálfboðaliðastörf, sem standa útlendingum til boða hér á landi virðast hafa færst í aukana, og eins ólaunað starfsnám laganema í meistaranámi. Í fréttum í fyrradag sagði Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins um sjálfboðaliðastörf á vefsíðunni Workaway að klárlega væri ólöglegt ef óskað væri eftir sjálfboðaliðum í efnahagslega starfsemi og nefndi þar gistiheimili eða iðnað. Ragnar Árnason lögfræðingur og forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins sagði í sjónvarpsfréttum í gær að verið væri að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja ef sum þeirra notuðu erlenda starfsmenn í sjálfboðavinnu til að skapa verðmæti í almennum störfum launamanna. Það væri óheimilt samkvæmt kjarasamningum.

Skatturinn skoði sjálfboðaliðastörfin

Ragnar segir að í hefðbundinni atvinnustarfsemi virtist sem svo að sjálfboðaliðum hefði fjölgað. 
„Við þekkjum það til sveita að þar hefur komið ungt fólk sem hefur svona fengið ákveðin tækifæri að kynnast landi og þjóð og hafa svona tekið þátt í bústörfum. En að hluta til er þetta skattalegt mál. Vegna þess að í stað þess að greiða þá fólki laun og draga frá eðlilegt endurgjald fyrir húsnæði og fæði að þá er jafnvel einungis verið að greiða húsnæði og fæði án þess að það sé greiddur af því skattur. Þannig að í rauninni ættu auðvitað skattayfirvöld þá einnig auðvitað að vera mjög áhugasöm um það að þessar reglur séu í lagi.“

SA, ASÍ og stjórnvöld fari yfir málin

Ragnar segir að ákveða verði hvar eigi að setja mörkin, ekki til þess að útiloka að ungt fólk geti kynnst störfum án verðmætasköpunar heldur meta hvenær fólk eigi að fá greitt samkvæmt kjarasamningum. 
„Þannig að ég held að við ásamt Alþýðusambandinu og stjórnvöldum þurfum að setjast yfir þessi mál bæði þá varðandi sjálfboðaliðastörfin og einnig þetta svokallaða starfsnám þannig að þetta sé allt á skýrum forsendum. Og atvinnurekendur, jafnt þá fyrirtæki sem stofnanir, viti nákvæmlega hvar þeir standa. “