Skulu lúta stjórnlagaþingi en víkja ella

08.09.2017 - 04:11
epa06156716 President of Venezuela, Nicolas Maduro, speaks at a press conference with international media at the Miraflores Palace in Caracas, Venezuela, 22 August 2017. Maduro commented on several issues including the poor relations with the United
 Mynd: EPA
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, varar verðandi ríkisstjóra landsins við því að véfengja lögmæti og völd hins nýkjörna stjórnlagaþings. Fari þeir ekki að vilja þess, verði þeir einfaldlega settir af. Ríkisstjórakosningar í öllum 23 ríkjum Venesúela standa fyrir dyrum. Endanleg dagsetning liggur ekki fyrir, en kosningarnar verða að líkindum haldnar í næsta mánuði, og þá líklega annaðhvort 15. eða 22. október.

Stjórnlagaþingið, sem eingöngu er skipað stuðningsmönnum Maduros, enda sniðgekk stjórnarandstaðan kosngarnar til þess, hefur í raun svipt löggjafarþing landsins öllum völdum. Stjórnarandstaðan í Venesúela og stjórnvöld í fjölmörgum ríkjum, þar á meðal nágrannaríkjum Venesúela, fordæma stjórnlagaþingið og segja stofnun þess illa dulbúið valdarán forsetans.

„Allir ríkisstjórar sem kosnir verða í embætti verða að lúta valdi Stjórnlagaþingsins, að öðrum kosti verða þeir sviptir embætti þegar i stað,“ sagði Maduro í ræðu sem hann flutti stjórnlagaþinginu. „Við munum halda frjálsar, beinar, leynilegar og almennar kosningar til að kjósa ríkisstjórana. Lýðræði og frelsi ríkja í Venesúela.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV