„Skrýtið að halda áfram í heimi án hans“

19.01.2016 - 16:11
Þeir deyja núna í löngum röðum gömlu meistararnir en Glenn Frey einn af stofnendum og lykilmönnum Eagles lést í gær, 67 ára að aldri. Á vef hljómsveitarinnar kom fram í gær að Frey hafi þjáðst að liðagigt og magabólgum og verið með lungnabólgu. Hann hafi verið mikið veikur síðustu vikur og svo í gær hafi líkaminn hreinlega gefið sig. Glenn Frey kom með Eagles til Íslands og spilaði með sveitinni í Laugardalshöllinni.

Glenn Frey og Don Henley stofnuðu Eagles í Los Angeles árið 1971 áramt þeim Randy Meisner og Bernie Leadon. Upphaflega voru þeir undirleikarar hjá söngkonunni Lindu Ronsstadt en fljótlega fór hljómsveitin að láta til sín taka í eigin nafni og varð hratt og örugglega ein allra vinsælasta hljómsveit Bandaríkjanna á áttunda áratugnum og ruddi brautina fyrir kantrí-popp-sveitir síðari tíma með blöndu af rokki og kántrítónlist.

Ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst honum

„Við erum allir í sjokki og fullir af sorg“ sagði Don Henley félagi Glenns í yfirlýsingu í gær. Hann bætti við að hann væri ekki viss hvort hann tryði á örlög, en það að hafa kynnst Glenn Lewis Frey árið 1970 hafi breytt lífi sínu öllu og haft áhrif á líf milljóna manna um allan heim. „Það mun verða skrýtið fyrir mig að halda áfram í heimi án hans, en ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst honum. Hvíl í friði bróðir sæll, þér tókst það sem þú ætlaðir þér og miklu meira en það“.

Glen Frey og Don Henley sömdu saman marga af helstu smellum Eagles, t.d. Best of my love, Lyin' eyes, One of these nights og Hotel California.  Frey hjálpaði Jackson Browne líka að klára smellinn mikla Take it easy þegar hann lagði til kaflann sem segir: "it's a girl, my Lord, in a flatbed Ford / slowing down to take a look at me."

Glenn Frey söng og spilaði á gítar, hann er sá sem yfirleitt stóð fremstur á sviðinu á tónleikum og alls óvíst að Eagles eigi nokkurn tíma eftir að stíga aftur á svið. Glenn söng aðalrödd í lögum eins og Take it Easy og Tequila Sunrise, annar aðal söngvari sveitarinnar.

Ein söluhæsta hljómsveit sögunnar

Platan Hotel California sem kom út 1976 og er yfirleitt talað um sem meistaraverk sveitarinnar er ein mest selda plata sögunnar, hefur selst í meira en 16 milljónum eintaka. En flestar seldust plötur sveitarinnar vel og á blóðatíma Eagles frá 1975 til 1979. Þá fóru allar plöturnar þeirra í fyrsta sæti á bandaríska vinsældalistanum - One of These Nights, Their Greatest Hits 1971-1975, Hotel California og The Long Run. Safnplatan Their Greatest Hits 1971-1975 var fyrsta plata sögunnar sem hlaut Platinum viðurkenningu fyrir sölu, en hún hefur í dag selst í næstum 30 milljónum eintaka. Það er bara Thriller Michaels Jackson sem hefur selst í stærra upplagi.

„I hate the fucking Eagles, man“

Í það heila hafa plötur Eagles selst meira en 100 milljónum eintaka og hljómsveitin var tekin inn í Frægðarhöll rokksins árið 1998. Aðdáendurnir eru margir sem elskuðu og elska Eagles en það er langt síðan bera fór á röddum sem sögðust ekki þola þessa hljómsveit og frægur er frasi The Dude í kvikmyndinni The Big Lebowski; „I hate the fucking Eagles...“. Bandarískur tónlistargagnrýnandi sagði í grein árið 1972 þegar hann skrifaði um fyrstu plötu Eagles; „Another thing that interests me about the Eagles is that I hate them“.

Frosið í helvíti

Með aukinni frægð og nýfengnu ríkidæmi súrnaði stemmningin innan sveitarinnar og árið 1980 var allt búið og menn töluðust ekki við í mörg ár. En árin liðu og tilboð um að koma saman aftur byrjuðu að streyma inn. Til að byrja með voru menn stóryrtir og sögðu; Ekki séns – fyrr frýs í Helvíti. Og það var einmitt það sem gerðist – það fraus í Helvíti og 1994 kom Eagles saman á ný og fór í Hell freezes over tónleikaferðinni sem var gríðarlega vel heppnuð. Það var gefin út tónleikaplata og sérstakur þáttur gerður hjá MTV. Síðan þá – undanfarin 20 ár rúm hefur Eagles svo túrað af og til og alltaf við gríðarlega góðar viðtökur.

„Orð fá ekki lýst sorg okkar“

Stemningin milli meðlima Eagles hefur allan þenna tíma verið mjög sérstök og menn lítið talast við eða verið í sambandi þrátt fyrir að vera saman í hljómsveit og spila á tónleikum árum og áratugum saman. Allt fyrir peningana og ekkert annað hafa sumir haldið fram.

En Don Henley segir í yfirlýsingu sinni frá því í gær; „Orð fá ekki lýst sorg okkar, eða ást okkar og virðingu fyrir öllu því sem Glenn gaf okkur í hljómsveitinni, fjölskyldu sinni, músíksamfélaginu og milljónum aðdáenda um allan heim.“

Magnús R. Einarsson heimsótti Poppland í dag og ræddi um Eagles og áhrif hljómsveitarinnar.

Mynd með færslu
Ólafur Páll Gunnarsson
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Poppland
Þessi þáttur er í hlaðvarpi