Skref í átt að lækningu Alzheimers

17.03.2016 - 05:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísindamenn telja mögulegt að hægt verði að finna leið til þess að bjarga minningum fólks sem þjáist af Alzheimer sjúkdómnum samkvæmt nýrri rannsókn. Vefsíða breska dagblaðsins Guardian greinir frá þessu.

Vísindamenn í Bandaríkjunum gerðu rannsóknir á músum sem voru með einkenni lík Alzheimer. Þeim var gefið vægt rafstuð í fæturna en þær gleymdu því jafnóðum. Þegar ákveðnar frumur í heilanum voru örvaðar með ljósi lagaðist minnið. Þær fóru þá að óttast þann hluta búrs síns þar sem rafstuðið var gefið aðeins klukkustund áður.

Meðferðin hjálpaði til við vöxt svokallaðra taugagripla við enda taugafrumanna. Griplurnar tengjast öðrum taugafrumum og senda þannig skilaboð áfram á milli frumanna. Vísindamennirnir segja aðferðina ekki virka á mönnum, en rannsóknin bendi til þess að í framtíðinni verði hægt að bjóða upp á meðferðir sem hjálpi til við að sækja minningar.

Susumu Tonegawa, prófessor við MIT háskólann í Bandaríkjunum og forsprakki rannsóknarinnar, segir stóru uppgötvunina vera þá að rannsóknin sýni að minningar lifi. Þær eru til staðar í heilanum þó þær virðist horfnar. Næsta skref sé að finna hvernig hægt er að sækja þær.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í nýjasta tímariti vísindaritsins Nature.