Skotárás í háskóla í Pakistan

20.01.2016 - 06:12
epa05070722 Pakistan army soldiers patrol outside the Army Public School (APS) during a ceremony at the APS in Peshawar, Pakistan, 16 December 2015. Pakistan on 16 December observed the first anniversary of a school massacre that shocked the country and
 Mynd: EPA
Minnst fimm eru látnir eftir að menn hófu skotárás í pakistönskum háskóla snemma í morgun. AFP fréttaveitan hefur eftir rektor háskólans að enn heyrist skothríð. Öryggissveitir eru komnar á vettvang og er búið að girða háskólasvæðið af.

Tveir árásarmenn eru látnir að sögn talsmanns öryggissveitanna, en þess er ekki getið hvort þeir eru meðal hinna fimm sem yfirmaður neyðaraðstoðar á svæðinu sagði AFP fréttaveitunni frá.

Rektorinn hefur eftir lögreglu að árásin sé enn í fullum gangi á skólalóð háskólans í Charsadda. Rektorinn segir engar hótanir hafa borist skólanum en nýlega sé búið að efla öryggissveitir skólans.

Skólinn er um 50 kílómetrum frá borginni Peshawar, þar sem mannskæðasta hryðjuverkaárás landsins var gerð á barnaskóla í desember síðastliðnum. 150 féllu í árásinni, flestir börn að aldri. Í gær féllu tíu í sjálfsmorðsárás á markaði í útjaðri borgarinnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV