„Skortur á gagnsæi“ í ráðningarferli forstjóra

23.02.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Ekki er unnt að greina frá því hverjir sóttu um starf forstjóra Hörpu, þar sem umsækjendur njóta nafnleyndar. Harpa hefur undanþágu frá upplýsingalögum. Þingmaður Pírata segir að gagnsæi sé ábótavant í þessu tilviki. 38 sóttu um starf forstjóra Hörpu og var Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, ráðin í starfið.

Skortir gagnsæi  

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það skjóti skökku við almenningur geti ekki fengið upplýsingar um hverjir sóttu um starfið. 

„Það skiptir náttúrlega mestu máli, þegar réttur borgara til upplýsinga er takmarkaður og þegar um mikilvæg borgaraleg réttindi er að ræða, eins og upplýsingafrelsið er, að þá séu allar takmarkanir á þeim réttindum eins afmarkaðar og skýrar og mögulegt er," segir Þórhildur Sunna. 

Harpa undanþegin upplýsingalögum

Forsætisráðherra getur veitt lögaðilum undanþágu frá upplýsingalögum, séu þeir að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Harpa fékk slíka undanþágu í nóvember 2015. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kom fram að ekki léki vafi á því að mikill hluti af stafsemi Hörpu félli undir samkeppnisrekstur í skilningi samkeppnislaga. Hins vegar mætti draga í efa að starfsemi Hörpu er varðaði Sinfóníuhljómsveit Íslands færi fram í samkeppni á markaði. 

Samkeppnisstofnun taldi einnig mikilvægt að tryggt yrði að um þá starfsemi Hörpu sem telst í samkeppni, skapist ekki ójafnræði í upplýsingaskyldu og miðlun, „sem væri óheppilegt fyrir samkeppni á viðkomandi markaði eða mörkuðum," eins og segir í ákvörðun forsætisráðherra. 86% af tekjum Hörpu hafi verið af samkeppnisrekstri og tæplega 95% þeirra sem komið hafi í Hörpu árið 2014 hafi gert það í öðrum erindagjörðum en til þess að hlýða á Sinfóníuhljómsveit Íslands. Því fari starfsemi Hörpu að nær öllu leyti fram í samkeppni á markaði.

Þarf sterkari rök 

Þórhildur Sunna segir að nauðsynlega þurfi sterkari rök fyrir því að draga úr gagnsæi í opinberum ráðningum. Það að Harpa sé á samkeppnismarkaði ætti ekki að vera nóg til þess að umsækjendur um forstjórastöðu njóti nafnleyndar. 

„Hér skortir gagnsæi. Ef það á að þrengja aðgang að upplýsingum verða að liggja skýrar og málefnalegar upplýsingar fyrir því. Við verðum að fá betri rök en við fáum í þessu tilfelli," segir Þórhildur Sunna. 

„Þegar það á að takmarka aðgengi að upplýsingum verða að liggja mjög skýr og sterk rök fyrir því."