Skortir langtímaáætlun um ljósleiðaravæðingu

25.02.2016 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið á að standa að lagningu ljósleiðara á landsbyggðinni þar sem ekki eru markaðslegar forsendur, að mati stjórnar Sambands sveitafélaga á Austurlandi. Formaður samtakanna leggur áherslu á að gerð verði áætlun til næstu ára. Starfshópur ráðherra um framkvæmd landsátaksins Ísland ljóstengt lauk störfum í morgun og skilar tillögum til ráðherra á næstu dögum. Formaður starfshópsins, Haraldur Benediktsson þingmaður, telur að áætlun um uppbyggingu næsta árs eigi að vera skýr um mitt ár 2016.

Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, segir að fjármagn til verkefnisins Ísland ljóstengt hafi komið seint fram og sé ekki í samræmi við væntingar vegna upphaflegrar kynningar á skýrslu starfshóps. Sveitarfélög hafi ekki bolmagn til að bregðast við breyttum forsendum í þessu brýnasta samgöngumáli nútímans. „Það þarf að vera skýrt hvaða reglur gilda og hvaða fjármagn fylgir til lengri tíma.“

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sendi frá sér ályktun um aðkomu ríkisvaldsins að svokallaðri ljósleiðaravæðingu Íslands í síðustu viku. Þar segir að ljóst sé að minni sveitarfélög ráði ekki við verkefnið á þeim forsendum sem hafi verið kynntar í ljósi núgildandi fjárlaga. Sigrún segir að í ár séu 108 milljónir króna ætlaðar til uppbyggingar í Norðausturkjördæmi. Líklega fari svipað fjármagn í hvern fjórðung. Það dugi skammt þótt það hvetji þau sveitarfélög áfram sem þegar hafa lagt í vinnu til þess að geta farið í útboð á lagningu ljósleiðara. Gagnrýni samtakanna snýst að mestu leyti um að aðgerðaáætlanir og tímamörk séu óljós.  Einnig er óljóst hvaða forsendur sveitarfélög þurfi að sýna fram á til þess teljast til þeirra svæða þar sem markaðsbrestur er á aðkomu fjarskiptafyrirtækja á frjálsum markaði. 

Ljóstengt Ísland verði fast verkefni Fjarskiptasjóðs

Að mati Haralds verða rétt um 400 milljónir króna af fjármunum Fjarskiptasjóðs eyrnamerktar landsátakinu í ár. Í tillögum starfshópsins felst, að hans sögn, frekari formfesting verkefnisins innan ramma Fjarskiptasjóðs og sjálfstæðrar stjórnar hans. Í ljós komi hvernig svæði verða metin þar sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir því að fjarskiptafyrirtæki byggi upp þjónustu á eigin vegum.

Forsvarsmenn sveitarfélaga á Austurlandi hafa mótmælt hvernig því fjármagni verður varið sem Fjarskiptasjóður hefur til umráða í ár til verkefnisins Ísland ljóstengt. Í svörum forsvarsmanna starfshópsins felst annars vegar að það sé ekki lögbundin skylda ríkis eða sveitarfélaga að útvega íbúum ljósleiðara- eða ljósnetstengingar en hins vegar að það sé lagt upp með að landsátakið sé samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Þetta gríðarlega fjárfreka verkefni verði ekki fjármagnað af ríkinu eingöngu. 

Pólítískur vilji fyrir byggðasjónarmiðum

„Þetta verður ekki framkvæmt á þeim svæðum þar sem markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi nema ríkisvaldið komi að þessari uppbyggingu. Því hljótum við að horfa til byggðasjónarmiðanna í þeim efnum. Það er yfirlýst markmið og stefna þessarar ríkisstjórnar að ljósleiðaravæða landið,“ segir Þórunn Egilsdóttir þingmaður Norðausturkjördæmis. 

Haraldur Benediktsson, þingmaður og formaður starfshópsins, segir að innan hópsins sé vilji til að horfa jöfnum höndum til byggðasjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða.  „Það má vel vega saman þessi atriði, þannig að lakar settu svæðin fái fyrr betri fjarskipti. Það mun birtast í tillögum fyrir næstu ár eða frá 2017. Megin málið er að nú er loks farið að hilla undir að stuðlað sé að uppbyggingu öflugra fjarskipta, þar sem markaðsfyrirtæki geta ekki eða treysta sér ekki eins og er í uppbyggingu.“

Haraldur segir jafnframt að það sé ekkert jafnræði í því að  fámenn sveitafélög líði fyrir samkeppni við stærri og sterkari sveitafélög. Hann segir að vegferð þessa verkefnis sé að hefjast á þessu ári og að það hafi verið rætt við landshlutasamtök sveitarfélaga að upphafsárið yrði mótað með sérstökum hætti. „Við höfum líka fengið gagnrýni á okkar hugmyndir og ætlum að bregðast við þeim.  Þess vegna tókum við upp samráð við sveitafélögin.“ Hann segir að vinna starfshópsins hafi nú verið lögð fyrir ráðherra og þar verði að finna hugmyndir að nánari útfærslu á landsátakinu „Ísland ljóstengt“.