„Skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta“

13.09.2017 - 21:30
Ræða forsætisráðherra var dapurlegt framlag inn í komandi kjaraviðræður, sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann lagði út af orðum Bjarna Benediktssonar sem sagði vinnumarkaðskerfið ónýtt og að gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði hefði verið landsmönnum fjötur um fót.

Logi sagði að stéttarfélög og félagsmenn þeirra hefðu verið skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Hann sagði nær að forsætisráðherra lærði af hinum Norðurlöndunum. Þar væri ekki aðeins byggt á efnahagslegum stöðugleika heldur líka félagslegum. Logi sagði að það væri nokkuð sem ríkisstjórnin mætti fara að skilja. „Á hinum Norðurlöndunum er fjárfesting hins opinbera í velferðar- og menntakerfinu ásamt umbótum í atvinnulífinu stór hluti af sátt á vinnumarkaði,“ sagði Logi. Hann sagði að raunverulegar lausnir í húsnæðismálum, auknar vaxtabætur og ríkari stuðningur við barnafjölskyldur hefði liðkað fyrir kjarasamningum en þetta væri allt skorið niður við nögl í fjárlagafrumvarpi næsta árs. 

Logi sagði Bjarna bíta höfuðið af skömminni þegar hann fullyrti að það skipti engu máli að skattbyrði hækkaði mest á lægstu launin þar sem almenn velsæld hafi aukist svo mikið. „Skítt með þótt bilið milli þeirra hæst og lægst launuðu breikki.“