„Skömmin er hluti af mér“

14.06.2017 - 10:10
Rithöfundurinn Karl Ove Knausgård olli fjaðrafoki í heimalandi sínu þegar sjálfsævisaga hans, Min kamp, kom út í sex bindum á árunum 2009-2011. Hann hefur brennt nokkrar brýr að baki sér, en sér ekki eftir ferðalaginu.

Rithöfundurinn Karl Ove Knausgård var staddur hér á landi á dögunum, til þess að taka þátt í ráðstefnunni NonfictioNow. Hann var án efa þekktasta nafnið á ráðstefnunni, en rithöfundurinn norski hefur á undanförnum árum klifið hratt metorðastigann og sex binda sjálfsævisaga hans, sem á norsku kallast hinu vafasama nafni Min kamp, verið þýdd á yfir 30 tungumál, en bækurnar komu út í Noregi á árunum 2009-2011. Áður hafði hann gefið út tvær skáldsögur, en sú fyrri Ut av verden, hlaut norsku gagnrýnendaverðlaunin árið 1998, og var það í fyrsta sinn sem frumraun höfundar hlaut þau virtu verðlaun.

Útgefandinn hafnaði bókinni

Þegar hann hófst handa við bækurnar sem síðar færðu honum heimsfrægð var Knausgård viss um að hann skrifaði fyrir daufum eyrum, að fáir myndu hafa áhuga á að lesa Min kamp. Annað kom þó á daginn, því ekki aðeins vöktu bækurnar gríðarlega athygli í heimalandinu, Noregi, heldur um allan heim, meðal annars í Bandaríkjunum, þar sem Knausgård var einfaldlega ókunnur norskur rithöfundur sem hafði ákveðið að skrifa sjálfsævisögu sína í sex bindum, og sparaði þar hvergi smáatriðin.

„Þegar ég reyndi fyrst að sannfæra enska útgefandann minn um að gefa bækurnar út sagði ég honum að þær fjölluðu um mig, væru 3600 blaðsíður í sex bindum, og atburðarásin væri lítil sem engin, þá afþakkaði hann boðið,“ segir Knausgård.

En þegar bækurnar komu út í Noregi ollu þær fjaðrafoki, enda var þar ýmislegt látið flakka um lifandi fólk, og þá fór boltinn að rúlla. Knausgård segir velgengnina þó fyrst og fremst byggjast á heppni. „Öllum er sama um bók eftir norskan rithöfund. Ég var heppinn því ég fékk góða gagnrýni í The New Yorker og áhrifamiklir rithöfundar lásu hana og mæltu með.“ Þannig öðlaðist Min kamp smám saman lesendahóp í Bandaríkjunum.

Sköpunarferlið er nátengt minninu

Sumir segja að við reisum minnisvarða til þess að gleyma. Var það óskin til þess að gleyma sem dreif Knausgård áfram í skrifunum, eða vildi hann rifja upp fortíðina?

„Bæði og,“ segir Knausgård. „Á meðan ég skrifaði leitaðist ég ekki við að muna en það gerðist í ferlinu. Sífellt fleira rifjaðist upp fyrir mér, ýmislegt sem var grafið langt niðri.“ Hann segist svo hafa sleppt takinu á minningunum, en þær séu mismikilvægar. Sumar móti okkur sem manneskjur á meðan aðrar skipti minna máli.

Knausgård segir ennfremur að sköpunarferlið sé nátengt minninu. „Ég veit aldrei hvort myndirnar sem birtast mér séu ímyndaðar eða endurminningar. Það er eins og í huganum fyrirfinnist forðabúr af andlitum, staðsetningum og hreyfingum, en uppsprettan sé óljós.“

Hversdagsleg smáatriði eru jarðtenging í hverfandi heimi

Í sjálfsævisögu sinni Min kamp dvelur Knausgård í smátriðunum. Hann lýsir til dæmis tedrykkju af natni. Er það hluti af þessu ósjálfráða ritflæði, að skrifa stöðugt og leyfa taktinum að mótast með ferlinu?

„Já, algjörlega. En svo er líka ánægjulegt að skrifa um hluti sem þú heldur kannski að sé ómögulegt að skrifa um,“ segir Knausgård og á þá við hluti eins og að teygja lýsingar á tedrykkju yfir fleiri blaðsíður. Hann nefnir þó líka óttann við hverfulleika heimsins og segir hann hafa verið ákveðna driffjöður í ferlinu. „Í upphafi ferlisins var ég uppfullur af örvæntingarfullri tilfinningu um að heimurinn væri að hverfa.“ Hann lýsir tilfinningunni sem hann upplifði, um að hinn áþreifanlegi heimur væri að hverfa, og brátt yrðum við bara til í einhvers konar netheimum. „Við erum alltaf að skoða símann, eða tala í hann, fylgjast með einhverju sem er að gerast annars staðar. Við erum ekki hér.“

Þess vegna vildi Knausgård skrifa líka um hversdagslegu hlutina í lífinu. Það er kannski ákveðin jarðtengin fólgin í þeim. En þetta hafa margir rithöfundar gert, á mismunandi máta, í skáldskap. Hvers vegna ákvað hann að setja sjálfan sig sem aðalpersónu bókanna, í stað þess að búa til einhvers konar hliðarsjálf? Var þetta spurning um sannleika?

Frelsi að leysa frá skjóðunni

„Þetta var eiginlega spurning um reiði og vanmáttarkennd,“ segir Knausgård. „Ég átti hliðarsjálf sem ég kallaði Henrik Vankel, sem missti föður sinn í ömurlegum kringumstæðum og heimsótti dánarstað hans með föður sínum, en ég trúði ekki á hann. Ég fékk þetta ekki til þess að virka,“ segir hann og vísar hér í aðalpersónu bókar sinnar Ut av verden sem kom út árið 1998, en eftir að Min kamp kom út hafa margir bent á að söguþráður Ut av verden kallist sterkt á við sjálfsævisöguna og hefur það vakið upp hatrammar umræður, bæði í Noregi og Svíþjóð, um ákveðnar senur þar sem mörk skáldskapar og raunveruleika verða að teljast vafasöm.

„Svo í lokin var ég orðinn svo pirraður að ég hugsaði einfaldlega: Fjandinn hafi það, ég skrifa bara um sjálfan mig,“ segir Knausgård og bætir við að það hafi breytt öllu. „Ég áttaði mig líka á öllum leyndarmálunum mínum og því sem ég hugsaði og þorði ekki að segja nokkrum manni – og það var mikil frelsistilfinning að láta það flakka.“

Hörð viðbrögð vina og ættingja

Knausgård segir að það hafi sannarlega verið auðveldara að opna sig og berskjalda eftir því sem leið á ritun bókanna. Bækurnar sex voru hins vegar allar gefnar út á rétt rúmu ári, og áður en sú fyrsta kom út hafði hann þegar lokið við að skrifa tvær og var í miðjum klíðum að ljúka þeirri þriðju. Þegar viðbrögðin við fyrstu bókinni komu í ljós runnu á hann tvær grímur.

„Fólk var bálreitt, vinir mínir og ættingjar, þetta var hreinasta helvíti. Svo þegar ég hófst handa við bók númer fjögur var ég meðvitaður um þessi viðbrögð og var miklu ljúfari. Ég sleppti út ákveðnum atriðum og steig varlegar til jarðar.“

Það sama má segja um bók fimm, en þegar hann svo tók við að skrifa síðustu bókina í syrpunni hvarf hann aftur til upprunalegu aðferðarinnar og lét allt flakka. „Það var hins vegar talsvert erfiðara, því viðbrögðin við fyrstu bókunum voru mér minnisstæð.“

Er orðið auðveldara að láta það flakka?

En Knausgård hefur sem sagt látið alls kyns hluti flakka í bókunum sínum, til dæmis hefur viðmót hans gagnvart foreldrahlutverkinu vakið athygli, þar sem hann skefur ekkert af tilfinningasveiflunum sem því fylgja, en það sem hann hefur opinberað í viðtölum hefur ekki síður vakið athygli. Til dæmis hefur hann sagt að hann hafi fundið fyrir tengingu við Adolf Hitler, þegar hann las um hann sem ungan mann, og geti skilið hugsanagang Anders Breivik. Þetta hefur stuðað ýmsa, en ætli það hafi brynjað hann að skrifa þessar sex ... ja, hispurslausu bækur … og hann óttist þar af leiðandi ekki opinbera skömm á sama hátt og áður?

„Já, áður fyrr var ég gífurlega hræddur við ágreininga og óttaðist álit annarra. Nú þori ég að segja miklu meira, opinberlega, en í einkalífinu er ég sami maður. Þar er skömmin hluti af mér.“

Ég er ekki hugrakkur

Gagnrýnendur hafa ausið lofi á sjálfsævisögusyrpu Knausgårds, Min kamp, og ýmsir haft á orði að hér sé á ferðinni afar hugrakkur maður, sem þori að sýna sitt rétta sjálf. Er Knausgård sjálfur sammála þessum dómi - finnst honum hann vera hugrakkur?

„Nei, ég var í rauninni í felum. Ég sat læstur inni í herbergi og heimurinn var fyrir utan. Ég hugsaði aldrei um afleiðingarnar, eða lesendurna,“ segir hann, en undirstrikar að útlegðin sé líka mikilvæg fyrir sköpunarferlið.
„Í skriftunum verð ég að vera frjáls, en það hefur ekkert með hugrekki að gera. Þegar allt fór svo á annan endann, þá varð ég lafhræddur og beið einfaldlega eftir að storminn lægði.“

Mikilvægt að loka sig af

En af hverju gefur hann bækurnar út ef það sem mestu máli skiptir er að skrifa í einrúmi? „Ég er rithöfundur, ég vil gefa efnið mitt út,“ segir Knausgård. „Hins vegar er mikilvægt í ferlinu að gleyma bæði lesendum og gagnrýnendum og skrifa bara fyrir sjálfan sig. Annars er hætta á að textinn verði - jú, hugsanlega fallegur - en ávallt ákveðin framsetning á væntingum.  Af hverju ætti ég að skrifa til að þóknast öðrum?“ 

Myndi hann gera þetta aftur?

Barátta mín – Min kamp – sex binda sjálfsævisaga hins norska Karls Ove Knausgård hefur vissulega slegið í gegn og sumir gagnrýnendur hafa jafnvel sagt að með henni hafi hann skrifað sig inn í bókmenntasöguna. Hér sé eitthvað alveg nýtt á ferðinni. Aðrir eru svo auðvitað á öðru máli og svo eru þeir sem enn eru bálreiðir út í höfundinn og sannarlega má segja að hann hafi brennt þó nokkrar brýr að baki sér með útgáfu Min kamp.

En ef allt er tekið með í reikninginn, gagnrýni – góð og slæm – og afleiðingar í einkalífi, ef hann fengi tækifæri til þess að fara aftur í tímann og endurskoða allt saman – myndi hann fara sömu leið?

„Ef ég vissi hversu erfitt þetta yrði, þá hefði ég ekki orkuna í það. Málið var að ég vissi ekkert, svo ég gerði þetta bara. En ég sé ekki eftir neinu, ég er ánægður með stöðu mína í dag. Mér hafa hlotnast ótal tækifæri og ég get verið rithöfundur í fullu starfi í mörg ár til viðbótar,“ segir hinn margumdeildi Karl Ove Knausgård, sem sannarlega hefur haft nóg fyrir stafni eftir útkomu Min kamp.

Viðtalið við Karl Ove Knausgård má heyra í heild sinni hér að ofan. 

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi