Skólpdælustöðin biluð mun lengur en 10 daga

09.07.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skólpdælustöðin við Faxaskjól í Reykjavík hefur verið biluð í um mánuð. Stjórn Orkuveitunnar var greint frá henni þann 15. júní. Engin tilkynning var send út um að skólp flæddi í fjöruna fyrr en eftir að RÚV sagði frá því. Formaður borgarráðs og borgarritari fréttu fyrst um málið í fjölmiðlum.

Ætluðu að ljúka viðgerð 16. júní

RÚV greindi frá því í síðustu viku að skólpdælustöðin við Faxaskjól í Reykjavík væri biluð, og að óhreinsað skólp flæddi í sjóinn í tíu sólarhringa. Stöðin hefur þó verið biluð mun lengur, eða í um það bil mánuð. Stjórnarmenn Orkuveitunnar fengu tilkynningu um bilunina á minnisblaði þann 15. júní og málið var rætt á stjórnarfundi þann nítjánda júní. Í minnisblaðinu segir um bilunina að mikill leki sé með neyðarlúgu og stefnt að lokum viðgerðar 16. júní. Síðar kom í ljós að bilunin var mun alvarlegri en talið var, og enn hefur ekki verið gert við neyðarlúguna. Lokað hefur verið fyrir flæði skólps úr stöðinni frá því á miðvikudag. Á morgun verður tekin ákvörðun um hvernig viðgerð verður háttað, en ljóst er að á meðan viðgerð stendur mun skólp flæða í sjóinn.

Fréttu um málið í fjölmiðlum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum RÚV í gær að hann hefði fyrst heyrt af málinu í fjölmiðlum. Hann hefur verið í fríi síðustu viku og staðgenglar hans eru þeir Stefán Eiríksson borgarritari og S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segjast þeir einnig hafa fyrst frétt af málinu í fjölmiðlum.  

Ekki lekið skólp allan tímann

Veitur, dótturfélag Orkuveitunnar, rekur skólpdælukerfið. Veitur tilkynnti ekki um bilunina til almennings en lét Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vita, sem fylgdist með saurgerlamengun í sjónum. Heilbrigðiseftirlitið taldi ekki hættu á ferðum, og tilkynnti ekki um skólpmengunina, þrátt fyrir að mörg hundruð milljónir lítra af skólpi hafi flætt í fjöruna við Faxaskjól. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni hefur ekki verið opið fyrir skólpflæði allan þann tíma sem lúgan hefur verið biluð.