Skólastjóri Barnaskólans hreinsuð af ásökunum

16.07.2017 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson  -  RÚV
Mál skólastjóra Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, sem sökuð var um ofbeldi gegn barni í skólanum, hefur verið fellt niður. Að sögn Margrétar Pálu Ólafsdóttur, stofnanda Hjallastefnunnar, hefur rannsókn Barnaverndar leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar og málinu sé því lokið. Skólastjórinn kemur aftur til starfa á morgun.

Nefndin er enn með til rannsóknar mál gegn stuðningsfulltrúa í skólanum en vonast Margrét Pála til þess að niðurstaða í því máli verði  fljótlega. „Starfsmenn barnaverndarnefndar vinna verk sitt vel og ég hef ítrekað að sú vinna tekur tíma. Við viljum vandaða niðurstöðu og ótvíræða eins og reyndist í máli skólastjórans okkar,“ segir Margrét Pála. 

Spurð um hvaða áhrif ásakanirnar hafi haft á skólann segir Margrét Pála að bæði starfsmannahópurinn og stjórnendur Hjallastefnunnar taki auðvitað nærri sér mál af þessu tagi, sem og foreldrahópurinn og barnahópurinn. „En auðvitað ætti það ekki að vera þannig því það er alltaf sjálfsagt að ef minnsti grunur vaknar hjá einhverjum um að einhverju sé ábótavant þá ber alltaf að skoða það,“ segir Margrét Pála. „Í nánast öllum tilvikum fer sú skoðun fram án þess að fjölmiðlar komi að málinu. Með mikilli virðingu fyrir fölmiðlum er oft gott að málin séu skoðuð áður en fjölmiðlaumfjöllun á sér stað. Þar með er ég samt alls ekki að segja að við eigum að vísa umfjöllun frá og við svörum alltaf heiðarlega um öll mál,“ segir hún. Mál af þessu tagi hafi hins vegar ekki áður komið áður upp.

Fyrst var greint frá málinu í frétt Stöðvar 2 í lok júní. Þar kom fram að grunur léki á að skólastjórinn hefði beitt eitt barn ofbeldi en stuðningsfulltrúinn væri grunaður um brot gegn fjórum strákum sem allir væru útskrifaðir.