Skólastjórar ekki spurðir um piltinn

07.08.2017 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Lögregla
Sex skólastjórar í Breiðholti og framkvæmdastjóri frístöðvamiðstöðvar hverfisins kannast ekki við að lögregla hafi grennslast fyrir hjá þeim um 15 ára pilt sem leitað var að vegna kynferðisbrots í Breiðholtslaug í síðustu viku. Lögregla lýsti eftir honum í fjölmiðlum og birti af honum myndir.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í síðustu viku kæra vegna alvarlegs kynferðisbrots sem framið var gegn sjö ára dreng í sturtuklefa Breiðholtslaugar á mánudag. Síðdegis á föstudag sendi lögregla fjölmiðlum myndir sem teknar voru úr eftirlitsmyndavélum laugarinnar. Óskaði lögregla eftir að ná tali af manni á myndunum vegna atviks í Breiðholtslaug á mánudeginum og hvatti fólk sem þekkti til hans að láta vita.

Pilturinn var auðþekkjanlegur á myndunum og augljóst að hann var ungur að árum. Um klukkustund síðar sendi lögregla frá sér aðra tilkynningu um að maðurinn væri fundinn og fjölmiðlar fjarlægðu þá myndina af vefjum sínum. 

Hefði ekki þurft nema 10-15 mínútna rölt

„Maðurinn“, eins og það var orðað í tilkynningum lögreglu, er fimmtán ára gamall piltur, fæddur haustið 2001. Forstjóri Barnaverndarstofu sagðist í gær ætla að kalla eftir upplýsingum um málið frá lögreglu eftir helgi. Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í sömu frétt að áður en lýst var eftir piltinum með þessum hætti, hafi lögregla reynt aðrar leiðir til að komast að því hver hann væri. 

Breiðhyltingar sem fréttastofa hefur rætt við í dag furða sig á þessum orðum og segja að varla hefði þurft að ganga um hverfið með mynd af piltinum lengur en í tíu, fimmtán mínútur til að fá upplýsingar um hann.

Þá hefur fréttastofa í dag rætt við skólastjóra fimm af sex grunnskólum hverfisins og Fjölbrautarskólans í Breiðholti, auk framkvæmdastjóra Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs, sem sér um frístundastarf fyrir öll börn og ungmenni í hverfinu. Öll hafa þau sömu sögu að segja: Lögregla hafi ekki haft samband við þau til að kanna hvort þau þekktu piltinn. Sum lýstu óánægju með aðferðir lögreglunnar. 

Fréttastofa hafði aftur samband við Grím Grímsson í dag til að spyrja hvernig nákvæmlega eftirgrennslan lögreglu hefði verið háttað. Grímur sagðist ekki hafa upplýsingar um það og vísaði á Kristján Inga Kristjánsson, yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglu. Ekki náðist í Kristján Inga fyrir fréttir.