Skólamál á Flateyri: Hefja samráðsferli

01.12.2016 - 12:03
Önundarfjörður flateyri Önundarfjörður flateyri Önundarfjörður flateyri
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar hafa ákveðið að sameina ekki leik- og grunnskólastig Flateyrar án samráðs við íbúa. Forseti bæjarstjórnar segir það hafa verið mistök að hefja ekki samráð við íbúa fyrr.   

Íbúar á Flateyri brugðust illa við þegar foreldrum barna í leik- og grunnskólum bæjarins barst bréf frá bæjaryfirvöldum um að sameina ætti leik- og grunnskóla Flateyrar undir þaki grunnskólans. Mesta reiði vakti skortur á samráði við íbúa en fyrir örfáum mánuðum áður hafði foreldrum verið sagt að ekki yrði ráðist í sameiningu án samráðs. Tilgangurinn með sameiningunni er að efla skólastarf á Flateyri. Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að hugmyndin hafi verið að eiga samráð við íbúa: „Núna sjáum við að við hefðum fyrr átt að fara í samtalið við íbúa. Það hefðum við átt að gera fyrr og það voru okkar mistök.“ 

Bæjarfulltrúar sammæltust um að hefja sameiningarferli skólastiga á Flateyri við gerð fjárhagsáætlunar bæjarins. Þar er gert ráð fyrir 27 milljónum í endurbætur á grunnskólanum meðal annars til að útbúa aðstöðu fyrir leikskólabörn. Nanný Arna segir að fjárhagsáætlun verði samþykkt í kvöld en þessar 27 milljónir verði ekki eyrnamerktar sameiningu skólastiganna. Hún segir að bæjarfulltrúar telji enn að það sé góð hugmynd að sameina skólastigin undir einu þaki, það sé alltaf betra að vera með stærri starfsstöð þar sem samgangur er á milli.  Nanný Arna segir að bæjarfulltrúar þiggi boð hverfisráðsins á Flateyri um að skipa samráðshóp með aðkomu stjórnsýslunnar og íbúa Flateyrar: „Við munum ekki fara af stað með þvingaðan flutning leikskólans yfir í grunnskólann en við viljum hins vegar finna leið með íbúum til að styrkja skólastarf á Flateyri í sessi svo þar verði áfram öflugt skólalíf því það er grundvöllur góðs samfélags að hafa góðan skóla.“