Skoðað hvort Cornell hafi svipt sig lífi

18.05.2017 - 13:26
epa05971343 (FILE) A file picture dated 30 May 2009 shows US musician Chris Cornell, known from the rock groups Soundgarden and Audioslave, performs during a concert at Pinkpop 2009, in Landgraaf, The Netherlands, 30 May 2009. Audioslave and Soundgarden
 Mynd: EPA  -  ANP
Bandaríski söngvarinn og lagasmiðurinn Chris Cornell lést í nótt, 52 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa Cornells kom fram að andlátið hefði verið óvænt og fjölskylda hans væri í áfalli. Lögreglan í Detroit telur að hugsanlega hafi Cornell svipt sig lífi.

Á vef BBC kemur fram að rödd Cornell hafi verið eitt helsta einkennismerki grunge-tónlistarstefnunnar  „grugg“ en sveitin hans, Soundgarden, var sú fyrsta í þessari tónlistarstefnu sem fékk útgáfusamning hjá stóru plötufyrirtæki.

Stærsti smellur sveitarinnar, Black Hole Sun, lifir enn góðu lífi en hægt er að hlusta á fimmtíu ábreiður af laginu á tónlistarveitunni Spotify. 

Gruggið er ættað frá Seattle og blómaskeið þess var á tíunda áratug síðustu aldar. Til hennar teljast hljómsveitir á borð við Hole og Mudhoney en fremst í flokki voru fimm sveitir - Nirvana, Alice in Chains, Stone Temple Pilots, Pearl Jam og áðurnefnd Soundgarden. Og af þessum fimm sveitum er aðeins einn söngvari þeirra á lífi - Eddie Vedder söngvari Pearl Jam.

Kurt Cobain, söngvari Nirvana, var aðeins 27 ára þegar hann svipti sig lífi þann 5. apríl 1994. Layne Staley, söngvari Alice in Chains, lést sama daga átta árum seinna eftir mikla eiturlyfjaneyslu og aðeins eru tvö ár síðan Scott Weiland, söngvari Stone Temple Pilots, fannst látinn í tónleikarútu sinni.

Cornell ræddi við Kastljós fyrir tónleika sem hann hélt í Laugardalshöll fyrir tíu árum en þeir þóttu heppnast einstaklega vel, aðdáendur söngvarans sungu með öllum helstu slögurum hans. 

Fjöldi tónlistarmanna hafa vottað minningu Cornells virðingu sína en það hafa íslenskir aðdáendur hans einnig gert. Í þeim hópi er Oddný Sturludóttir, píanókennari og fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Haukur Viðar Alfreðsson, pistlahöfundur og söngvari Morðingjanna, lýsir því hvernig andlát Cornell snerti hann.

Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistaskríbent, tjár sig einnig um andlát Cornell á Facebook-síðu sinni.

Finni Karlsson, söngvari Dr. Spock, deildi síðan mynd af sér og Cornell.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV