Skoða útboð á rekstri Skálafells

11.02.2016 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einkavæðing skíðasvæðisins í Skálafelli er nú til athugunar hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samtökin hafa ekki getað byggt þar upp á síðustu árum, og svæðið var lokað í nokkur ár.

Skíðalyfturnar í Skálafelli eru orðnar gamlar og lítil sem engin uppbygging hefur verið á svæðinu síðustu fimmtán ár. Gerðar hafa verið tilraunir með að hafa opið á sumrin fyrir fjallahjólreiðafólk en á veturna hefur lítið verið opið, þrátt fyrir að oft sé nægur snjór. 

Hafa ekki getað byggt upp

„Eins og kannski sumir vita þá var í tvö, þrjú ár lokað í Skálafelli. Það er bara staðreynd að við höfum ekki getað farið í þá uppbyggingu sem við hefðum viljað sjá,“ segir Eva Einarsdóttir, formaður samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

Því kviknaði sú hugmynd hvort hægt væri að bjóða út rekstur svæðisins og uppbyggingu. Til að það geti orðið þarf að nást samstaða meðal allra sveitarfélaganna sem eiga svæðið. Eva segir að þetta sé því aðeins á byrjunarstigi.

Ótengt hugmyndum um Hlíðarfjall og Oddsskarð

Á Akureyri er verið að kanna hvort hægt sé að fara sömu leið með Hlíðarfjall og í Oddsskarði, fyrir austan, sér einkaaðili um reksturinn.

„Þegar þetta kom til tals hjá okkur, þá var það ekkert því tengt sérstaklega. En við höfum heyrt af því að samstarfsfélög okkar í öðrum sveitarfélögum væru að gera þetta. Engu að síður finnst mér mikilvægt að minna á að auðvitað, eða mér finnst það mikilvægt, að sveitarfélög séu líka að styðja við svona jákvætt fjölskyldusport. En að sama skapi sé það eðlilegt að skoða hvort við gætum gert eitthvað með öðrum hætti,“ segir Eva.