Skjálfti í Bárðarbungu fannst á Akureyri

15.10.2014 - 11:33
Mynd með færslu
Snarpur jarðskjálfti varð í norðanverðri öskju Bárðarbungu, klukkan korter yfir ellefu í dag. Fyrstu mælingar benda til að skjálftinn sé af stærðinni 5,4. Hann fannst greinilega á Akureyri.

Pétur Halldórsson hjá Skógrækt ríkisins, segir skjálftann hafa verið vel greinilegan, og hafa varað nokkra stund. „Við höfum verið að finna skjálfta af og til hér fyrir norðan en mér fannst þessi vera langdregnari,“ segir Pétur.

Tæplega 130 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu síðasta sólarhring. Skjálftum hefur fjölgað síðustu daga við Bárðarbungu, að því er fram kemur í yfirliti frá Veðurstofu Íslands. Síðustu vikuna hefur gosið í Holuhrauni haldist óbreytt og með jöfnu hraunflæði.

Útlit er fyrir hægt vaxandi austanátt í dag. Gera má ráð fyrir að eftir hádegi berist sú gasmengun sem er yfir landinu til vesturs, ásamt því gasi sem kemur frá gosstöðvunum í dag. Búast má við mengun á landinu vestanverðu og gætu loftgæði orðið slæm. (Sjá mynd frá Veðurstofu Íslands).