Skjálftavirkni í vestanverðum Vatnajökli

10.01.2016 - 10:08
Mynd með færslu
Bárðarbunga á blíðviðrisdegi  Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Í morgun mældust tveir skjálftar að stærð 3,2 í vestanverðum Vatnajökli, sá fyrri kl. 5:18 í suðausturhluta Bárðarbunguöskju og annar kl. 8:46 um 7 km norðaustur af Hamrinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kristínu Jónsdóttur og Njáli Fannari Reynissyni, náttúruvásérfræðingum á vakt. Sá síðari er staðsettur á Lokahrygg um 4 km vestur af Vestari Skaftárkatli. Þar hljóp síðast í júní síðastliðnum og olli litlu hlaupi í Skaftá.

Skjálftinn er ekki talinn tengjast Vestari Skaftárkatli auk þess sem vísindamenn reikna ekki með að þar hafi safnast mikið vatn.

Frostbrestir mælast nú við Heklustöðvar - sér í lagi á Feðgum - en frost herti í nótt á svæðinu. Frostbrestir koma fram á jarðskjálftamælum sem stuttir atburðir með stutta bylgjulengd. Þeir eru óháðir kvikuhreyfingum.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV