Skipulag gæti beint umferð frá Fjarðabyggð

12.01.2016 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Leiðir inn á Mið-Austurland  -  Grunnkort LMI
Mynd með færslu
 Mynd: Eftir breytingu  -  Aðalskipulag í Berufjarðarbot
Mynd með færslu
 Mynd: Fyrir breytingu  -  Aðalskipulag í Berufjarðarbot
Sveitarfélagið Fjarðabyggð og Djúpavogshreppur eru ósammála um hvernig hanna eigi vegamót við Þjóðveg 1 í Berufjarðarbotni; hverjir þurfi að taka beygju og hverjir fái að aka beint. Fjarðabyggð mótmælir skipulagi á nýrri veglínu þar sem Axarvegur er gerður ráðandi í hönnun vegamóta en hann liggur til Héraðs framhjá Fjarðabyggð.

Í skipulagstillögu Djúpavogshrepps er gert ráð fyrir því að taka þurfi beygju til að halda áfram á Þjóðvegi 1 sem liggur til Breiðdalsvíkur, áleiðis til Fjarðabyggðar. Veglínan liggi beint upp á Öxi til Héraðs en það er framtíðarvegurinn að mati Djúpavogshrepps. 

Ferðamannagildran

Fjarðabyggð hefur lengi barist fyrir því að Þjóðvegur 1 fari ekki um fjallveginn Breiðdalsheiði eins og hann gerir nú eða Öxi heldur um svokallaða fjarðaleið á láglendi með ströndinni. Raunar hafa Breiðdalsheiði og Öxi á síðustu árum virkað eins og eins konar ferðamannagildra. Vegunum er ekki haldið opnum allan veturinn en GPS-tæki ferðamanna beina þeim þá leið til Mið-Austurlands enda er hún styttri. Ástandið hefur skánað en ekki albatnað eftir að Vegagerðin setti upp lokunarslár. Breiðdalshreppur berst fyrir vetrarþjónustu á Breiðdalsheiði til Héraðs en Djúpavogshreppur berst fyrir heilsársvegi yfir Öxi til Héraðs. Báðar leiðirnar liggja framhjá Fjarðabyggð sem hefur ekki stutt Djúpavogshrepp í baráttu fyrir uppbyggingu Axarvegar og iðulega kastast í kekki þegar málið ber á góma.

Hvert ætti beina brautin að liggja?

Nú stendur til að malbika Berufjarðarbotn í Djúpavogshreppi, einn af fáum ómalbikuðum köflum á Þjóðvegi 1. Þar er nú hægt að taka beygjuna út af Þjóðvegi 1 inn á Axarveg til að stytta sér leið til Egilsstaða og fara framhjá Breiðdalsvík og Fjarðabyggð. Í skipulagi nýrrar veglínu um Berufjörð kristallast Axar-deilan í því hvernig hanna eigi vegamótin inn á Axarveg, hvort beina brautin eigi að liggja upp á Öxi eða til fjarða.

Í athugasemdum Fjarðabyggðar segir meðal annars: „Er með öllu óásættanlegt að sumarvegur yfir Öxi sé gerður ráðandi vegur samkvæmt skipulagi með T gatnamótum. Er því beint til skipulagsyfirvalda að hafa öryggi vegfarenda í huga.“ Fyrr í bréfinu er bent á að uppbygging Axarvegar hafi ekki átt sér stað og fundið að því að umferðartölur í skipulagstillögunni nái aðeins yfir tvo sumardaga árið 2008. Gagnrýnt er að slíkar tölur séu notaðar sem rök fyrir því að Axarvegur verði ráðandi. Fjarðabyggð vísar í ársmeðaltöl fyrir árið 2014 þar sem sjáist að umferð um fjarðaleið sé meiri.

Axarvegur framtíðarleiðin að mati Djúpavogshrepps

Djúpavogshreppur svarar og bendir á að samkvæmt lögum eigi aðalskipulag að sýna stefnu sveitarfélagsins um þróun samgöngu- og þjónustukerfis til að minnsta kosti 12 ára. Í núgildandi skipulagi frá árinu 2010 sé gert ráð fyrir uppbyggingu á heilsársvegi yfir Öxi til Héraðs. Þar sé þegar gert ráð fyrir T-gatnamótum og að hringvegurinn skuli vera víkjandi. Breytingin í nýja skipulaginu felst í því að vegurinn um Berufjarðarbotn er færður utar í fjörðinn. Í bréfinu segir að Axarvegur og gatnamótin séu liður í því að „styrkja vegakerfi sveitarfélagsins og stytta vegalengdir milli sveitarfélagsins og miðsvæðis Austurlands. Hér er því um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íbúa Djúpavogshrepps sem og aðra vegfarendur.“ Þá er í bréfinu fullyrt að könnun Vegagerðarinnar hafi leitt í ljós að umferð um Öxi yrði meiri en um fjarðaleið ef Axarvegurinn yrði gerður að heilsársvegi. Þá telur Djúpavogshreppur ekki rétt að kalla Axarveg sumarveg líkt og fulltrúar Fjarðabyggðar gera.

T-gatnamót ekki einsdæmi

Andrés Skúlason, oddviti á Djúpavogi, segir í samtali við fréttastofu að mörg sveitarfélög hafi skipulagt gatnamót þannig að taka þurfi beygju til að halda áfram á Þjóðvegi 1. Í athugasemdabréfi Fjarðabyggðar segir hinsvegar: „Sú staðreynd réttlætir ekki að haldið sé áfram á þeirri vegferð, heldur er mikilvægt vegna öryggissjónarmiða að unnið sé að því að fækka [T-gatnamótum] frekar en fjölga.“ Andrés hafnar því hinsvegar að slík gatnamót dragi úr öryggi vegfarenda. Þvert á móti hafi Vegagerðin komist að þeirri niðurstöðu að slík T-gatnamót séu bæði vegtæknilega og skipulagslega besti kosturinn á þessum stað. Að öðrum kosti væru vegamótin komin niður í fjöru og jafnvel út í sjó.

Nýja aðalskipulagið hefur verið sent til Skipulagsstofnunar til staðfestingar en umsagnarfrestur rann út 25. nóvember 2015. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV