Skilríkjalaus krónprins komst ekki inn á bar

21.08.2017 - 21:19
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Krónprinsi Dana var neitað um inngöngu á ástralskan bar í borginni Brisbane því hann var ekki með skilríki. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að krónprinsinn hafi að lokum komist inn á barinn ásamt fylgdarliði sínu með hjálp diplómatískra öryggis-starfsmanna. Þeim tókst að sannfæra dyraverði um að krónprinsinn þyrfti ekki að framvísa skilríkjum.

Friðrik krónprins Danmerkur er 49 ára. Hann var staddur í Brisbane til að fylgjast með kappsiglingu lystisnekkja. Strangar reglur gilda um staði sem selja áfengi í Queensland og öðrum fylkjum Ástralíu. Yfirleitt þurfa gestir að framvísa vegabréfum og ökuskírteinum til að komast inn á skemmtistaði eftir miðnætti. Reglurnar voru settar til að stemma stigum við óeirðum sem tengjast áfengisneyslu.

Phil Hogan, meðeigandi barsins sem krónprinsinn heimsótti, sagði fjölmiðlum að téðar reglur væru hreinasta martröð. „Þetta sem kom fyrir prinsinn er bara toppurinn á ísjakanum. Þetta er alltaf að koma fyrir venjulegt fólk," sagði hann. 

Fjallað er um málið á fréttavef Breska ríkisútvarpsins BBC.

 

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV