Skilnaðir og sjálfsævisögur í sumarbókunum

18.06.2017 - 13:30
Glæpasögur, ítalskar örlagasögur og sjálfsævisögulegar skáldsögur eru meðal þess sem mest ber á í sumarbókunum þetta árið. Minna er um nýjar útgáfur íslenskra unghöfunda en áður.

Sunna Dís Másdóttir verkefnastjóri hjá Borgarbókasafninu segir bækur ítalska höfundarins Elenu Ferrante njóta mikillar hylli um þessar mundir, fjögurra bóka flokk sem nefnist í daglegu tali Napólí-sögurnar. „Síðasta bókin kom í maí og það eru 90 á biðlista hjá okkur. Við eigum samt 30 eintök þannig að þetta er allt í lagi. Ekki örvænta, röðin kemur að ykkur.“ Sunna Dís bætir því við að glæpasögur verði áfram fastur liður hjá landsmönnum þegar kemur að lesefni fyrir sumarið.

Óregla og frjálslyndur lífsstíll

„Sumarið er tími til að taka eitthvað rosalega bitastætt sem lúkkar rosalega vel við hliðina á þér í sólbaðinu, en þú veist að þú munt ekkert opna það. Bara Íslendingasögurnar eða Shakespeare, eða eitthvað,“ segir Þorgeir Tryggvason, bókaormur og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Hann spáir því að í sumar gætu bækur um óreglu og frjálslyndari lífsstíl komið sterkar inn. „Það kom út nýlega fræg óreglubók sem heitir Uggur og andstyggð í Las Vegas eftir Hunter S. Thompson, Fear and Loathing heitir hún víst. Það getur verið að það henti á útihátíðunum?“ Hann segir einnig að íslensk þýðing á Ananas, nýjustu bók írska höfundarins Marian Keyes gæti orðið vinsæl. „Þetta er svona gellubók.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Sunna Dís og Þorgeir í Kiljunni.

Saknar ungu höfundanna

Sunna Dís segist finna minna fyrir ungum höfundum á þessum árstíma en oft áður. „Ég saknaði ungu íslensku höfundanna, mér hefur fundist eins og þeir séu stundum að koma á þessum árstíma sem er kannski bæði gott og vont fyrir þá.“ Hún segir að bækur á þessum tíma séu líklegri til að fara beint í kilju og það sé kannski ekki jafn eftirsóknarvert fyrir alla. „En það er voða lítið að gerast þar. Það er [aðeins] Stofuhiti frá Bergi Ebba.“

Aðspurð um ríkjandi strauma og stefnur í bókmenntaheiminum segir Sunna Dís að sjálfsævisögulegar skáldsögur séu vinsælar. Þorgeir tekur undir það: „Ég veit ekki hvort að það er nýtt eða hvort að það stendur yfir, svona tilraunir með mörk skáldskapar og veruleika. Skáldaðar sjálfsævisögur og sjálfsævisögulegar skáldsögur er auðvitað ekkert nýtt, en athyglin beinist að svona bókum,“ segir Þorgeir.

epa04960771 Norwegain writer Karl Ove Knausgard poses outside a hotel in Berlin, Germany, 02 October 2015. Knausgard won the literature prize 2015 of German newspaper 'Welt', as announced in September.  EPA/BERND VON JUTRCZENKA
 Mynd: EPA
Höfundurinn Karl Ove Knausgård var staddur á Íslandi fyrir skömmu.

Sunna Dís nefnir sem dæmi um slíka höfunda hjónin fyrrverandi, Karl Ove Knausgård og Linda Boström Knausgård, en Karl Ove sótti Ísland heim á dögunum. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir frjálsleg og opinská skrif um samferðarfólk sitt. Sunna Dís segir einnig að hjónaskilnaðaþema sé algengt í nýjum titlum þessa stundina. „Það eru svona átök um sögur í gangi þar. Ég veit ekki hvort að það sé endilega sumarlestur, en jú, kannski er betra að lesa um skilnaði á sumrin en í skammdeginu.“

Sunna Dís Másdóttir og Þorgeir Tryggvason ræddu um sumarbækurnar í Síðdegisútvarpi Rásar 2 þann 13. júní síðastliðinn. 

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi