Skelfing á Reyðarfirði - grófu með höndunum

20.03.2017 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Af Facebooksíðu Ársólar  -  Ársól
Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð ætla að auka öryggisráðstafanir við Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði eftir að mikill snjór hrundi af þaki hússins í gær. Óttast var að börn hefðu orðið undir og skelfing greip um sig í bænum. Svo heppilega vildi til að björgunarsveitamenn voru að þjálfa leitarhunda skammt frá og voru þeir fljótir að sannreyna að enginn hefði grafist í snjónum.

Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði er stór yfirbyggður gervigrasvöllur og á húsinu er bogadregið þak. Börn eru gjarnan við húsið enda snýr önnur hlið þess að leiksvæði við grunnskólann. Þegar þakskriðan féll eftir hádegi í gær vildi svo heppilega til að björgunarsveitir voru að æfa snjóflóðaleit með átta hundum í Oddsskarði.

„Við brunum niður eftir og þegar við komum á staðinn þá er alveg ótrúlegur fjöldi af fólki að moka; grafa með höndunum og í rauninni bara gjörsamlegt stjórnleysi þarna en fólk var samt að gera alveg rétt. Það var barn sem sá önnur börn vera að leika þarna rétt áður og það segir foreldrum sínum frá því og þá fer þetta af stað,“ segir Björn Einarsson, starfandi formaður björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði.

Í fyrstu komu þrír leitarhundar á staðinn og fimm til viðbótar bættust fljótt við. Þetta voru hundar frá Reykjavík, Hveragerði, Eyjafirði og Austfjörðum. „Við leituðum tvo hringi í kringum húsið og vorum tiltölulega fljót að sannfæra okkur um að það væri enginn undir snjónum.“ Björn segir að upp við húsið hafi snjóþykktin verið rúmur metri en fljótlega tekur við skábrekka og þar hafi snjórinn ekki verið þykkur. Björn bendir á að snjóskriður af þakinu geti líka skapað hættu fyrir þá sem eru inni í húsinu. Þær fylli neyðarútganga og loki þeim.

Björgunarsveitin hefur bent bæjaryfirvöldum á hættur við húsið sem er 10 ára gamalt. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir að nú standi til að endurskoða hvort hægt sé að setja varnir á þak hússins, merkingum verði fjölgað og svæðið betur girt af. Nú þegar séu börn frædd um þá hættu sem snjóskriða af þaki hússins getur skapað og öryggisáætlanir verði efldar enn frekar. 

Uppfært 20.03.2017 kl. 21:26

Fram kemur á vefsíðunni fotbolti.net að þegar skriðan féll hafi leikur Leiknis og Fram í Lengjubikarnum staðið yfir í húsinu og að 10-15 mínútna hlé hafi verið gert á leiknum á meðan leikmenn og áhorfendur tóku þátt í að moka og leita í snjónum. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV