Skatturinn skellir í lás ef ekki er bætt úr

24.02.2016 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Byggingafyrirtæki með sex erlenda undirverktaka gæti verið lokað á næstunni. Ríkisskattstjóri hefur þegar lokað nokkrum fyrirtækjum og mál nærri fimmtán fyrirtækja með erlenda starfsmenn hafa verið send skattrannsóknarstjóra. Starfsmenn Ríkisskattstjóra fara daglega í vettvangsferðir á vinnusvæði.

Þrír hópar á vettvangi alla daga 

Eftirlitssvið Ríkisskattastjóra var eflt um áramótin og lögð áhersla á vettvangseftirlit, sem embættið telur skilvirkustu leiðina til að uppgötva athugunarverð skattskil bæði innlendra og erlendra aðila. „Í dag eru þetta sirka þrír hópar, sem eru alla daga úti á vettvangi, og síðan erum við í samstarfi við hagsmunaaðila, sem eykur fjöldann.“ segir Sigurður Jensson sviðsstjóri eftirlitssviðs embættisins og á þar við samstarf embættisins, Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins, lögreglunnar, SA og ASÍ, sem sett var á laggirnar í október.

Fjöldi alvarlegra mála

Ríkisskattstjóri getur ekki líkt og Vinnueftirlitið lokað svæði strax komi í ljós að eitthvað er í ólagi. Beitt er svokölluðum lokunarheimildum en þá er viðkomandi gefinn kostur á að gera úrbætur. Sé það ekki gert er fyrirtækinu eða starfsstöðinni lokað, segir Sigurður.  „Í dag er í gangi lokunarheimild á erlent fyrirtæki eða reyndar sex erlend fyrirtæki, sem eru að vinna fyrir einn aðila. Þar er verið að fara fyrir formsatriði og skoða hvers eðlis vinnusambandið er, sem þarna liggur að baki.“ Hann segir að lokunartilmælin dugi í flestum tilvikum. „Þar sem þeir gera það ekki þá skellum við í lás.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Jensson sviðsstjóri eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra

 

Lokun starfsstöðva er ekki markmið, segir Sigurður, en þó hefur komið til þess: „Við höfum lokað nokkrum, fjórum, fimm starfsstöðvum innlendra fyrirtækja, sem hafa nýtt sér þjónustu erlendra verkamanna. Við höfum ennfremur vísað yfir 10 til 15 málum, sem sagt íslenskum fyrirtækjum, þar sem erlendir verkamenn voru að störfum en engu var skilað.“

Kennitöluflakk: Sagan endalausa

Þessum síðastnefndu málum var vísað til Skattrannsóknarstjóra. Þau snúast meðal annars um kennitöluflakk því eigendur fyrirtækjanna hætta að nota kennitöluna. „Viðkomandi eigandi fer og fær sér nýja kennitölu og hefur leikinn aftur. Í þeim málum er það eina, sem við getum, að vísa málinu til refsimeðferðar. Þetta er þá svona sagan endalausa? Já, þetta er svolítið sagan endalausa og sagan sorglega og vonandi munum við sjá betri tíð í þeim efnum því það er mjög bagalegt að geta ekki tekið á þessum undanskotum, sem eru fyrir framan augun á okkur.“