Skattur á gamla Eimskip ekki felldur niður

28.01.2016 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra um að gamla Eimskipafélag Íslands, sem nú heitir A1988, fái ekki fellda niður 7,4 milljarða króna skattkröfu.

Málið snerist um að við nauðarsamninga félagsins árið 2009 voru gefnar eftir skuldir upp á ríflega 90 milljarða króna. Ríkisskattstjóri taldi að telja ætti þessa eftirgjöf fram til tekna, og lagði því 7,4 milljarða viðbótarskatta á fyrirtæki. Forsvarsmenn A1988 töldu hins vegar að eftirgjöfin væri ekki skattskyld. 

Hæstiréttur vísar í forsendur héraðsdóms, þar sem kemur fram að skuldin var gefin eftir í tengslum við nauðarsamninga en ekki kaup á eignarhlutum. Því væri ekki hægt að líta á þetta sem skuld færða á móti fjárfestingu en slíkt hefði verið heimilt að draga frá skatti samkvæmt lögum. Því var ríkið sýknað af kröfum A1988, sem jafnframt þarf að greiða ríkinu eina milljón í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV