Skáld nútímans

Bókmenntir
 · 
Lestin
 · 
menning
 · 
Menningarefni

Skáld nútímans

Bókmenntir
 · 
Lestin
 · 
menning
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.09.2017 - 16:10.Eiríkur Guðmundsson.Lestin
Þann 31. ágúst síðastliðinn voru 150 ár liðin frá andláti franska skáldsins Charles Baudelaires, eins merkasta ljóðskálds Frakka á 19. öld. Baudelaire hafði gríðarleg áhrif á ljóðlistarsögu Vesturlanda, hann var einn af þeim sem ruddu brautina fyrir nútímaljóðlist og var af sumum talinn fyrsti nútímamaðurinn.

Nútímamaður í París

Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur og þýðandi segir að Baudelaire hafi verið meira fyrir dökku hliðarnar, hann orti um borgina og umbylti ljóðforminu um leið, var meðal annars frumkvöðull í því að skrifa svokölluð prósaljóð. „Hann var kannski svoldið dekadent maður, og orti frekar svona grá og grimm ljóð um borgarlíf í París að miklu leyti, mikill frumkvöðull, ekki síður í efnistökum og þessari áherslu á breytt líf nútímamannsins í iðnvæddu og tæknivæddu samfélagi sem þá var á bernskudögum sínum.“

Umbylti ljóðforminu

Baudelaire var í senn rómantíker og módernisti, hann stóð á krössgötum í ljóðlistarsögunni. „Í rauninni stendur hann fótum í rómantíkinni,“ segir Sölvi, „og maður sér að hann örugglega elst upp sem rómantískt skáld og hefur eflaust ort á þeim nótum sem ungur maður. Og í rauninni fara hans frægari ljóð í bundnu formi ekkert gegn því sem hafði tíðkast í því hvernig menn ortu ljóð og höfðu gert í árhundruðir. Það eru kannski frekar efnistökin eins og í Les Fleurs du mal sem að eru annars konar en hjá fyrirrennurum hans.“

Ómæld áhrif

Áhrif ljóða Baudelaires skiluðu sér mjög fljótt inn í ljóðlistina, hann hafði áhrif á skáld á borð við Arthur Rimbaud, Paul Verlaine og Stéphane Mallarmé, og raunar enn fleiri skáld sem tilheyrðu symbólismanum og síðar súrrealismanum. Sölvi Björn, sem hefur töluvert fengist við það að yrkja ljóð eftir Rimbaud, byrjaði sjálfur ungur að lesa Baudelaire, „hann hafði sæmileg áhrif á það hvað ég fór að lesa þegar ég var ungur og maður sá að þetta var einn af þeim fyrstu sem fóru inn í þennan módernisma. Ég heillaðist mikið af Rimbaud þegar ég var ungur og maður sá þennan skyldleika þarna á milli, og þessa beinu línu, magnaður.“

Hættulegur maður

Sum ljóða Baudelairs þóttu ekki prenthæf á sínum tíma af siðferðisástæðum, þótt þau virki sakleysisleg í dag, „þetta féll ekki að borgaralegum gildum,“ segir Sölvi, „hann var svona undirmálsskáld að því leytinu til en stórskáld fyrir bókmenntirnar sjálfar.“

Þýðingar

Ýmsir hafa fengist við að þýða ljóð Baudelaires á íslensku, þeirra á meðal eru Jón Óskar, Helgi Hálfdanarson, Erlingur E. Halldórsson, Málfríður Einarsdóttir, Kristján Þórður Hrafnsson og Þorgeir Þorgeirson. Sjálfur hefur Sölvi þýtt eitt ljóð eftir Baudelaire, það gerði hann ungur að aldri í frönskutíma í Menntaskólanum í Reykjavík. En hann lætur sig dreyma um að gera meir, jafnvel þýða bókina frægu, Les Fleurs du mal, í heild sinni, en það er  hans mati ársverk. „Ég þyrfti að fara að framleiða einhvern gosdrykk eða fá arf til að leggja í það verkefni. Ég veit ekki hvort maður hefur hreinlega efni á því.“ Það er að hans mati afar vandasamt að þýða ljóð Baudelaires, „þetta er svo rosalega þéttur pakki, mikil lýrík og orðkynngi í stuttum textum sem maður þarf að vanda sig við, koma vel til skila.“

Rætt var við Sölva Björn Sigurðsson í Lestinni og Þorvaldur Friðriksson las tvö ljóð Baudelaires í íslenskum þýðingum Jóns Óskars og Helga Hálfdanarsonar.