Skagen-safnið opnað eftir endurnýjun

22.02.2016 - 22:23
Erlent · Evrópa · Menning
Mynd með færslu
Skagen-safnið.  Mynd: RÚV
Skagen-safnið í Danmörku hefur verið opnað að nýju eftir gagngerar endurbætur. Sýningarsvæðið hefur verið stækkað úr 500 fermetrum í 900 fermetra. Margrét önnur Danadrottning opnaði safnið.

Safnið hýsir verk Skagen-málaranna svonefndu. Það var hópur listamanna sem kom árlega til Skagen nyrst á Jótlandi frá um 1870 og til aldamótanna 1900.

Safnið var opnað 1908 og hefur margsinnis verið stækkað og endurnýjað. Að þessu sinni tók það tvö ár að endurnýja safnið. Bertel Haarder menningarmálaráðherra var viðstaddur opnunina. Hann  sagði safnið stórt, bjart og fallegt.

Í hópi Skagen-málaranna voru meðal annarra Danirnir Marie og Peder Severin Krøyer, Anna og Michael Ancher, Laurits Tuxen, Viggo Johansen, Karl Madsen og Holger Drachmann, Svíarnir Oscar Björck og Johan Krouthén og Norðmennirnir Christian Krohg og Eilif Peterssen.

Hópurinn hittist reglulega á Brøndums-hótelinu á Skagen. Sagt er að hópurinn hafi laðast að Skagen vegna landslags og sérstakrar birtu og fjarlægðinni frá ysi og þys borgarlífsins. Sum þeirra settust raunar að á Skagen.

Lisette Vind Ebbesen safnstjóri segir að nú sé mun meira rými fyrir listaverkin. Þá sé tækifæri til að sýna verk í eigu safnsins í fallegu umhverfi og vera samtímis með annars konar sýningar. 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV