Skaðleysisyfirlýsingar berast ekki

13.11.2010 - 19:17
Mynd með færslu
Bankarnir hafa hundsað beiðni viðskiptaráðherra um að senda frá sér yfirlýsingar þar sem þeir lofa því að höfða ekki skaðabótamál komi á daginn að þeir hafi ofgreitt kröfuhöfum við gengislánaleiðréttingu. Hagsmunir þeirra upp á tugi milljarða séu í húfi.

Bankar og fjármálastofnanir hundsað beiðni efnahags- og viðskiptaráðherra um að þær sendi frá sér yfirlýsingar sem eiga að tryggja að engum kröfum verið beint til ríkissjóðs vegna nýrrar löggjafar um gengislán. Þá eru þeir beðnir um að lofa því að höfða ekki skaðabótamál vegna tugmilljarða króna taps sem þeir gætu orðið fyrir við gengislánafleiðréttinguna sem nú er í farvatninu með nýju frumvarpi.


Ráðuneytið hefur beðið eftir þessum yfirlýsingum í um það bil þrjár vikur. Hugmyndin með nýja frumvarpinu um gengislánin er að flýta fyrir því að niðurstaða fáist í margskonar ólíkum málum. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ, segir þetta skapa hættu fyrir löggjafann, hættu á því að eigendur bankanna komi og segi „niðurstaða dómstólanna hefði kannski ekki orðið sú sem þið eruð að knýja okkur til þess að taka á okkur.“ Þá vilji þeir fá bætur vegna þess sem þeir telja sig hafa verið knúna til að ofgreiða. Það sé til þess að koma í veg fyrir þessa kröfu, sem ráðherrann vill fá skaðleysisyfirlýsingu. Þórólfur segir það að fjármálastofnanirnar virðist draga lappirnar í  þessu máli bendi til þess að þeir telji að ákvæði frumvarpsins gangi of langt miðað við líklega niðurstöðu dómstóla.


Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður fer með mál margra stórra erlendra kröfuhafa. Hann hefur sent öllum fjármálastofnunum bréf þar sem hann segist ætla að höfða mál gegn þeim fyrir hönd kröfuhafanna, ef bankarnir verða við ósk ráðherrans og senda frá sér yfirlýsingar með loforði um að höfða ekki skaðabótamál. Þórólfur telur útfrá því sem hafi verið sagt í fjölmiðlum, líti út fyrir að þarna sé um upphæð að ræða sem hlaupi á tugum milljarða.