Sjúkrahús sprengt með sjúkling innandyra

09.01.2016 - 08:18
Erlent · Asía · Kína
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Hafist var handa við að jafna sjúkrahús í Kína við jörðu þrátt fyrir að enn væru læknar og sjúklingur innandyra. Lík sem geymd voru í líkhúsi sjúkrahússins grófust undir rústunum. Yfirvöld rannsaka nú hvað fór úrskeiðis.

Um tuttugu manns í fullum herklæðum sprengdu hluta háskólasjúkrahúss í Huiji í Henan héraði á fimmtudag að sögn ríkissjónvarps Kína, CCTV. Haft er eftir lækni að hann hafi verið að skoða röntgenmyndir ásamt sjúklingi sínum þegar húsið hóf að hristast og skjálfa. Sjúklingurinn hélt að það væri kominn jarðskjálfti og hraðaði sér út.

Líkhús sjúkrahússins var lagt í rúst að sögn héraðsfréttamiðilsins Dahebao. Sex lík sem voru geymd þar lágu undir rústunum. Læknabúnaður að andvirði fjögurra milljóna yuana, jafnvirði tæplega 80 milljóna króna, eyðilagðist við aðgerðina. Þrír starfsmenn sjúkrahússins meiddust í átökum við þá sem sprengdu húsið.

Verktakar liggja undir grun

AFP fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum í Huiji að rannsókn fari nú fram á því hvers vegna byggingin hafi verið sprengd. Niðurstöðu er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á mánudag. Ekki hafa enn verið borin kennsl á fólkið sem framkvæmdi sprenginguna og ekki var búið að grafa líkin undan rústunum þegar AFP ræddi við yfirvöld í gær.

Getgátur eru um að verktaki sem tók að sér að breyta vegum í nágrenni sjúkrahússins hafi framkvæmt sprenginguna. Á kínverskum spjallþráðum á netinu eru fjölmiðlar gagnrýndir fyrir litla umfjöllun um atvikið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV