Sjúkrabíll fauk út af á leið yfir Oddskarð

16.02.2016 - 09:29
Mynd með færslu
Mynd úr safni  Mynd: Landsbjörg
Sjúkrabíll á leið yfir Oddskarð fauk útaf veginum um klukkan 21:00 í gær og sat þar fastur. Hann var á leið til baka frá Neskaupstað eftir að hafa flutt sjúkling á Héraðsjúkrahúsið. Fallslys varð á bænum Vattarnesi í sunnanverðum Reyðarfirði og var hinn slasaði fluttur um Oddskarð um kl. 20.00. Eftir að Björgunarsveitin Brimrún frá Eskifirði hafði farið á staðinn og aðstoðað við að ná sjúkrabílnum aftur upp á veg var veginum lokað. Stöðugur vindur var á bilinu 20-22 m/s og fór yfir 30 í hviðum

Jónasar Wilhelmsson yfirlögregluvarðstjóri á Austurlandi, segir að þrátt fyrir minni háttar óhöpp hafi gærkvöldið farið nokkuð vel miðað við að veðrið varð mun meira en upphaflega spáð. Fólk virti vel viðvaranir í fjölmiðlum og voru fáir á ferli. Smábátar voru ekki nægilega tryggilega bundnir í höfninni á Reyðarfirði og þurftu björgunarsveitir að sinna því.

Útköll víða

Erlendir ferðalangar sátu fastir í ófærð á Háreksstaðaleið ofan Vopnafjarðar, tré féllu og rúður brotnuðu í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Á fimmta tug björgunarmanna hafa komið að þessum aðgerðum, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Síðar um kvöldið var tilkynnt um fastan bíl við Bláa Lónið, þar var ferðafólk í vanda. Hurð á sundlauginni á Bolungarvík fauk upp sem og gluggi á leikskólanum á Suðureyri. Þar fauk landgangur við flotbryggju í höfninni en ekkert verður gert í því fyrr en veður lægir.  

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV