Sjoppurnar sem hurfu yfir móðuna miklu

01.01.2016 - 18:26
Sjoppuhangs hefur aldrei þótt parfínt á Íslandi. Foreldrar vöruðu við eða jafnvel bönnuðu sínum unglingum að hanga í sjoppunum. Þær voru víða um borgina en líklega hefur mest verið skrifað um Simmasjoppu, sem var á Grímsstaðaholtinu vestur í bæ.

Simmasjoppa, mynd: Guðmundur Ingólfsson.

Það var ekkert sem hélt okkur inni

Samkvæmt orðabók Háskóla Íslands kom orðið sjoppa fyrst fyrir á prenti árið 1937 í tímaritinu Iðunni, þar sem hneykslast er yfir notkun enska orðsins shop í tengslum við bókabúð Snæbjarnar í Hafnarstræti.

Tímaritið Iðunn, 1937.

Pétur Gunnarsson rithöfundur telur að sjoppuhangsið hafi m.a. stafað af lítilli afþreyingu inni á heimilum upp úr miðri síðustu öld, grammófónar hafi ef til vill verið það eina sem hélt unglingunum heima. „Við vorum alltaf úti, úti að leika sem krakkar, og síðar úti í sjoppum að hitta aðra unglinga,“ segir Pétur um sín æskuár.

Offramboð og hnignun 1989

Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari myndaði um 20 sjoppur árið 1989, þær eru allar horfnar nema ein, þ.e. Sunnusjoppa.

Sunnusjoppa, mynd: Guðmundur Ingólfsson.

„Mér fannst einhvern veginn 1989 að ég væri farinn að merkja offramboð og hnignun svo ég ákvað að taka mig til og ljósmynda mjög nákvæmlega þær sem að voru mest áberandi,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hékk sjálfur lítið í sjoppum, segist hafa verið sparsamur og ekki tímt að eyða peningum í kók, en vinur hans bauðst þá til að lána honum, því hann drykki alltof lítið af kókinu. Hann átti þó uppáhalds sjoppu, Bláhornið, á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs. 

Bláhornið, mynd: Guðmundur Ingólfsson.

„Núna eru þær að mestu horfnar, ég held að 10-11 hafi veitt þeim náðarhöggið,“ segir Guðmundur.

Fjallað var um sjoppur og sjoppumenningu í Flakki Rásar 1. Hlusta má á þáttinn í spilaranum að ofan.

 

Mynd með færslu
Lísa Pálsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Davíð Kjartan Gestsson
vefritstjórn
Flakk
Þessi þáttur er í hlaðvarpi