Sjónvarpsþættir um fjöldamorðin í Útey

18.06.2017 - 20:52
epa04326314 Wreath-laying ceremony on Utoya Island, Norway, 22 July 2014, during memorial day for the 69 people killed during Anders Behring Breivik's shooting rampage on 22 July 2011. Norway will continue to 'fight for openness, tolerance and
 Mynd: EPA  -  NTB SCANPIX
Ekki eru allir á eitt sáttur um staðsetningu minnisvarða sem á að reisa um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í Útey fyrir sex árum. Norska ríkissjónvarpið vinnur að sjónvarpsþáttum um fjöldamorðin í Útey.

Á Úteyjarbryggju kemur til með að rísa minnisvarði um þau 77 sem hryðjuverkamaðurinn Anders Bering Breivik myrti í júlí árið 2011. Héðan ýtti hann út vör og hélt út í Útey dulbúinn sem lögreglumaður. Þangað var líka þónokkrum bjargað að landi eftir að Breivik hóf árás í eyjunni.

Valið stóð á milli Úteyjarbryggju og Sørbråten en íbúar í nágrenninu mótmæltu síðarnefnda staðnum. Þeir eru heldur ekki á eitt sáttir með Úteyjarbryggju, og telja margir að minnisvarðinn ýfi í sífellu upp gömul sár og minni á voðaverk Breiviks.

Breivik kemur hins vegar lítið sem ekkert við sögu í nýjum sjónvarpsþáttum sem eru í bígerð um fjöldamorðin í Útey. Norska ríkissjónvarpið, NRK, framleiðir heimildaþættina sem verða sex talsins. 

Einn framleiðenda þáttanna sagði ekkert pláss fyrir Breivik í þeirri sögu, hann verðskuldi ekki slíka umfjöllun.

Sjónum verður þar fyrst og fremst beint að þeim hverra störf voðaverki höfðu áhrif á. Það eru læknar og hjúkrunarfólk, útfararstjórar, sálfræðingar sem veittu áfallahjálp og dómarar sem komu að réttarhöldunum yfir Breivik, svo fáeinir séu nefndir.

Þættirnir verða frumsýndir haustið 2019.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV