Sjónvarpsfrétt RÚV um morðið á Palme

03.03.2016 - 06:00
Á sunnudag voru þrjátíu ár liðin frá morðinu á Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar. Bogi Ágústsson var þá fréttamaður Ríkisútvarpsins í Danmörku. Hann fór yfir til Stokkhólms og gerði frétt um morðið, sem enn er óupplýst. Bogi ræðir morðið á Palme á Morgunvaktinni á Rás 1 í dag.

Í fréttinni ræðir Bogi við Benedikt Gröndal, sendiherra Íslands í Svíþjóð, sem hafði þekkt Palme í aldarfjórðung.

Hann sagði augljóst við fyrstu kynni að þar væri um efnilegan mann að ræða. Palme hafi alltaf haft raunverulegan áhuga á Íslandi og málefnum þar. Benedikt sagði að morðið hafi óhjákvæmilega haft mikil áhrif á sænsk stjórnmál og stórt skarð hafi verið höggvið í þau.

Bogi talaði einnig við fólk sem kom saman nærri morðstaðnum til þess að syrgja forsætisráðherrann fyrrverandi. Viðmælendur sögðu Palme meðal annars hafa verið mann fólksins og góðan vin.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi