Sjómenn taka ákvörðun um mánaðamótin

18.01.2016 - 10:03
Sjómenn við löndun.
 Mynd: RÚV
Samninganefnd Sjómanna tekur ákvörðun um mánaðamótin hvort farið verði í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Skoðanakönnun stendur nú yfir meðal sjómanna um hvað þeir vilji gera í kjaradeilunni sem nú er í gangi.

Kjarasamningar sjómanna við útgerðarmenn hafa verið lausir í tæp fimm ár. Viðræður voru síðast í gangi í byrjun desember. Þá var þeim slitið og hefur ekki verið boðað til fundar síðan þá. Skoðanakönnun stendur nú yfir og eru þar þrír valkostir í boði – óbreytt ástand, að ganga til samninga á grundvelli tilboðs útgerðarmanna eða að fara í aðgerðir.

Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands segir að samninganefnd sjómanna komi saman í lok mánaðarins til að fara yfir stöðuna. „Þetta kemur í ljós þegar allir eru komnir í land. Það er verið að bíða eftir hvað komi frá okkur.“

Verkalýðsfélag Akraness birti á vef sínum í gær niðurstöðu úr skoðanakönnun sem var gerð í sjómannadeild félagsins. Samkvæmt henni vilja 81,8% sjómanna þar fara í aðgerðir, 18,2% vildu semja en enginn vildi óbreytt ástand.

Sjálfur býst Valmundur frekar við því að sjómenn vilji fara í aðgerðir. Ef það verða skilaboðin sem sjómenn senda samninganefnd sinni geta þó liðið allt að tveir mánuðir þangað til af þeim verður. Þá þarf að fara í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, sem tekur um það bil mánuð. Verði verkfall samþykkt þarf að boða það með minnst þriggja vikna fyrirvara. 

En það eru fleiri sjávarútvegsstarfsmenn í deilum. Skipstjórnarmenn og vélstjórar á farskipum hafa boðað verkfall frá miðnætti aðfararnótt 1. febrúar. Guðmundur Ragnarsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að fundur sé boðaður í deilunni á fimmtudaginn. Þar svara útgerðarmenn tilboði sem starfsmennirnir hafa lagt fram. Sá fundur ræður því væntanlega miklu um framhaldið.