Sjálfstýrður Google-bíll ók í veg fyrir strætó

01.03.2016 - 01:23
Mynd með færslu
 Mynd: S. Jurvetson  -  Wikimedia Commons
Sjálfstýrður bíll á vegum Google ók á strætisvagn í Kaliforníu um miðjan febrúar. Þetta var ekki fyrsti áreksturinn sem slíkur bíll hefur lent í, frá því þeir fóru fyrst á götuna, en þetta var að öllum líkindum fyrsti áreksturinn sem slíkur bíll orsakaði. Bíllinn mun hafa ekið út úr stæði og í veg fyrir aðvífandi strætisvagn. Engan sakaði í árekstrinum.

Strætisvagninn var ekki á mikilli ferð og hinn mennski aðstoðarökumaður sjálfrennireiðarinnar segist hafa átt von á að hann myndi hægja enn á sér til að hleypa fólksbílnum inn á götuna og því ekki tekið fram fyrir hendur tölvunnar. 

Tölvustýrðir bílar Google hafa ekið hátt í tvær milljónir kílómetra vítt og breitt um Bandaríkin en aldrei lent í alvarlegum árekstrum og aldrei valdið neinum slíkum fyrr en nú. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV