Sjálfstæðisflokkur krefur Pál um 20 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn, fyrir hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs, hefur stefnt Páli Heimissyni, fyrrverandi starfsmanni hópsins. Páll var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í fyrra, þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir að draga sér tuttugu milljónir. Sannað þótti að Páll hefði notað kreditkort hópsins í 321 skipti í heimildarleysi.

Stefnan hefur verið birt í Lögbirtingablaðinu en hún er dagsett 27. janúar. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Páli í febrúar á síðasta ári en vísaði skaðabótakröfu Sjálfstæðisflokksins frá vegna galla. Í stefnunni kemur fram að úr þeim göllum hafi verið bætt og því sé verið höfða þetta skaðabótamál. Lögmaður Sjálfstæðisflokksins í málinu er Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður hans. 

Umboðssvik Páls áttu sér stað á árunum 2009 til 2011 og í stefnunni er aðdragandinn rakinn hvernig brot hans komust upp og viðbrögð hans við því. Meðal annars er fullyrt að Páll hafi í mars 2011 heitið því í tölvupósti til framkvæmdastjóra hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs að taka saman ítarlega skýrslu um misgjörðir sínar.

Hann er í tölvupóstinum sagður hafa gengist við því að hafa brugðist trúnaðartraustinu sem honum hafi verið sýnt og að hann myndi leggja sig fram við endurgreiða fjárhæðina. Samkvæmt stefnunni hafa þær greiðslur aldrei borist. 

Einnig er fullyrt að Páll hafi heitið því að taka saman ítarlega skýrslu um misgjörðir sínar til að aðstoða við að upplýsa málið. „Sú skýrsla barst aldrei,“ segir í stefnunni. Páll neitaði síðan sök þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í stefnunni er einnig greint frá leitinni að Páli til að birta honum stefnuna en það hefur ekki gengið þrautalaust.  Hann er sagður búa í Rúmeníu, nánar tiltekið í borginni Brasov. Haft var samband við hann og hann beðinn um að gefa upp heimilisfang sitt.

Páll svaraði þessu erindi í ágúst í fyrra og upplýsti lögmann Sjálfstæðisflokksins um hvert væri hægt að senda stefnuna. Hún var þýdd yfir á rúmensku og ensku og síðan send til Rúmeníu gegnum sýslumanninn á Suðurnesjum. Sem hefur milligöngu um stefnubirtingar.  

Um miðjan janúar á þessu ári barst hins vegar erindi frá rúmenskum yfirvöldum þar sem fram kom að ekki hefði tekist að birta Páli stefnuna þar sem hann virtist hafa flutt aftur til Íslands. „Ekki var nánar tiltekið á hvaða forsendum rúmensk yfirvöld hefðu komist að þeirri niðurstöðu,“ segir í stefnunni.

Engar upplýsingar liggi fyrir að Páll hafi flutt aftur til Íslands, íslenskt símanúmer hans sé óvirkt og samkvæmt þjóðskrá sé hann skráður til heimilis í Rúmeníu. Í stefnunni er Páli því gert að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þann 15. mars þegar málið verður þingfest, leggja fram gögn af sinni hálfu og halda uppi vörnum. Mæti hann ekki má hann búast við því að útivistardómur gangi í málinu.